top of page

Tunglið rís er Sólin sestUndir lok þessa árs verður kjörtímabil Alþingis hálfnað og af því tilefni fara Ungir umhverfissinnar nú af stað með spennandi verkefni sem ber heitið Tunglið.


Tunglið er framhaldsverkefni Sólarinnar, einkunnagjöf Ungra umhverfissinna fyrir Alþingiskosningar 2021, þar sem stefnur stjórnmálaflokkana voru metnar út frá metnaði þeirra í umhverfismálum. Sólin hafði það markmið að meta stefnur og loforð flokkana, en hafa þeir staðið við einhver þessara loforða?


Markmið Tunglsins verður því að meta árangur stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum til þessa á kjörtímabilinu út frá gjörðum þeirra frekar en orðum, því það eru aðgerðirnar sem skila raunverulegum árangri en ekki loforðin. Tilgangur þessa verkefnis er þríþættur:


  1. Að hvetja stjórnmálaflokka til að standa við og ganga lengra en eigin stefnur í umhverfismálum.

  2. Að upplýsa almenning um hversu vel stjórnmálaflokkarnir hafa staðið við stefnur sínar.

  3. Að lyfta rödd ungs fólks í umræðunni um ákvarðanatöku sem tengist umhverfismálum.


Við sendum frá okkur þessa tilkynningu til að gefa flokkunum kost á að spýta í lófana ef þeir hafa ekki staðið sig nógu vel í því að fylgja eftir stefnumálum sínum um umhverfismál á kjörtímabilinu.


Snið Tunglsins verður með aðeins öðrum hætti en Sólin vegna þess að ekki er jafn grundvöllur til að meta árangur stjórnarflokka og stjórnarandstöðuflokka. Endanleg útfærsla á umgjörð einkunnagjafarinnar er í mótun og verður hún kynnt um leið og hún liggur fyrir.


Niðurstöður Tunglsins, einkunnagjöf Ungra umhverfissinna á miðju kjörtímabili 2023, verða kynntar í vetur.


Ráðnir verða þrír tímabundnir starfsmenn til að sjá um, m.a., gagnavinnslu, grafíska hönnun og forritun á vefsíðu. Líkt og í Sólinni verður fyllsta hlutleysis gætt í öllu ferli Tunglsins.


Vinna stendur einnig yfir við bókverk sem lýsir ferlinu í kring um Sólina og innifelur verkfærakistu svo samtök í öðrum löndum geti nýtt sömu aðferðafræði og til að hægt sé að endurtaka leikinn hér á landi fyrir næstu Alþingiskosningar.


Nú þegar Sólin hefur sest tekur Tunglið að rísa.___

Frekari upplýsingar um Tunglið veitir:


Finnur Ricart Andrason, forseti Ungra umhverfissinna.


Comments


bottom of page