Áskorun til Alþingis: Sömu lög fyrir alla atvinnustarfsemi
- Laura Sólveig Lefort Scheefer
- Oct 2
- 2 min read
Áskorunin hér fyrir neðan fór til forseta Alþingis í morgun. Að henni stendur breiðfylking náttúruverndarsamtaka landsins. Tilefnið er fyrirhuguð endurskoðun á lögum um lagareldi. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa boðað að drög að frumvarpi um lagareldi verði lögð fram eftir áramót.
Við skorum á Alþingi að fella brott lagaákvæði um svokallað burðarþolsmat, sem bætt var við lög um fiskeldi árið 2014. Með þessu ákvæði var búin til leið fyrir sjókvíaeldisfyrirtækin fram hjá gildandi lögum um stjórn vatnamála frá 2011 og lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda frá 2004.
Lög um stjórn vatnamála geyma umhverfismarkmið sem bindandi eru fyrir ríkið og er markmið þeirra „að vernda vatn og vistkerfi þess, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa“. Þá er lögunum ætlað „að stuðla að sjálfbærri nýtingu vatns og langtímavernd vatnsauðlindarinnar“. Þau gilda um allt vatn, þar á meðal strandsjó, þar sem sjókvíeldi er stundað.
Lög um varnir gegn mengun hafs og stranda taka til „hvers konar starfsemi sem tengist atvinnurekstri“ en markmið þeirra er „að vernda hafið og strendur landsins gegn mengun og athöfnum sem stofnað geta heilbrigði manna í hættu, skaðað lifandi auðlindir hafsins og raskað lífríki þess, spillt umhverfinu eða hindrað lögmæta nýtingu hafs og stranda.“
Ríkið ber ábyrgð á framkvæmd laganna.
Með því að að setja inn ákvæði um burðarþolsmat í sjókvíaeldi opnaði Alþingi leið fyrir eldisfyrirtækin til að láta allt skólp frá iðnaðarstarfseminni renna óhreinsað í sjóinn: lífrænan úrgang, fóðurleifar, örplast, lyf, skordýraeitur og þungmálma. Staðfest er að þessi mengun raskar lífríki í hafinu.
Auðlindir hafsins umhverfis Ísland eru ein af meginstoðum tilveru okkar. Það er dýrkeypt að spilla þeim. Sjálfsögð krafa er að öll atvinnustarfsemi fari eftir lögum sem hafa verið sett til að vernda þessar dýrmætu auðlindir þjóðarinnar. Ekki á að leyfa neinar hjáleiðir sem skaðar þær. Samstaða um hafvernd er grundvöllur velferðar þjóðarinnar og lífríkisins.
Að þessari áskorun standa:
Íslenski náttúruverndarsjóðurinn (IWF)
Náttúrugrið
Landvernd
Verndarsjóður villtra laxastofna (NASF)
Aldin – samtök eldri aðgerðarsinna gegn loftslagsvá
Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST)
F.L.Í.S.
Ocean Missions
Laxinn lifir
Ægis
Ungir umhverfissinnar
Náttúruverndarsamtök Íslands
Vá – félag um vernd fjarðar
Vakandi
Samtök um vernd náttúru á Norðurlandi (SUNN)
Sustainable Ocean Alliance (SOA) Iceland Myndin sem hér fylgir var tekin í október 2023 þegar Arctic Fish og Arnarlax þurftu að slátra og farga um 1,7 milljón eldislaxa vegna þess hversu illa særðir þeir voru eftir að laxalús náði óviðráðanlegri útbreiðslu í sjókvíum í Tálknafirði. Ljósmynd/Veiga Grétarsdóttir.




Comments