top of page

Um félagið

Félagið


​Ungir umhverfissinnar eru frjáls félagasamtök. Tilgangur félagsins er að vera vettvangur ungs fólks á Íslandi til að láta gott af sér leiða í umhverfismálum. Við viljum hvetja til upplýstrar umræðu um umhverfismál og berjumst fyrir sjálfbærri þróun, náttúruvernd og grænu hagkerfi. 

 

Starfið


Ungir umhverfissinnar nálgast umhverfismál frá öllum sjónarhornum. Skoðanir okkar byggjast á vísindalegum grunni. Við lítum á fjölbreytni sem styrkleika og erum félag fyrir alla unga umhverfissinna. Við leitumst við að virkja alla félagsmenn til góðra starfa á vegum félagsins. Við höfum jafnrétti og jákvæðni að leiðarljósi og berum virðingu fyrir hvort öðru.

 

Grunnhugsjónir


Ungir umhverfissinnar vilja að þörfum núlifandi kynslóðar sé mætt án þess að það komi niður á möguleikum komandi kynslóða og að tilveruréttur náttúrunnar sé viðurkenndur og virtur. Við vinnum í þágu þessarar hugsjónar með því að gera okkar besta til að hafa áhrif á stefnumótun, umræðu og almennt hugarfar í umhverfismálum. Til þess að ná fram markmiðum okkar beitum við stjórnvöld þrýstingi og stuðlum að jafningjafræðslu, viðburðum og útgáfu.

 

Málefni


Ungir umhverfissinnar taka afstöðu til málefna á grundvelli grunnhugsjóna sinna. Við leggjum sérstaka áherslu á málefni sem snerta Ísland og íslenskt samfélag. Ungir umhverfissinnar styðja grunnhugmyndir Ríóyfirlýsingarinnar, svo sem varúðarregluna og mengunarbótaregluna. Þeir málaflokkar sem við einbeitum okkur að eru meðal annars loftslagsbreytingar, verndun víðerna, ofneysla og viðhald líffræðilegs og jarðfræðilegs fjölbreytileika.


Að lokum


Ungir umhverfissinnar vilja lifa í jafnvægi við náttúruna, í samfélagi þar sem maðurinn, framleiðsla hans og neysla eru hluti af náttúrulegri hringrás og þar sem jákvæð umhverfishyggð er jafn sjálfsögð og borgaraleg réttindi.
Samþykkt 4. apríl 2013.

bottom of page