Sannfærandi tónn, en framhaldið mun skera úr um árangur: Fyrstu viðbrögð við nýju landsframlagi Íslands
- Laura Sólveig Lefort Scheefer
- Sep 12
- 1 min read
Landvernd, Ungir umhverfissinnar og Náttúruverndarsamtök Íslands telja nýtt landsframlag Íslands til Parísarsáttmálans nokkuð sannfærandi miðað við stefnu fyrri ríkisstjórna, en telja jafnframt að auka verði metnaðinn. Til að mynda var ekkert minnst á markmið fyrir sjávarútveginn í kynningu ráðherra.
Mjög jákvætt var að sjá að setja á kraft í orkuskipti í samgöngum á landi, sérstaklega með tilliti til bílaleigubíla, og einnig áherslu á endurheimt votlendis.
Stjórnvöld skuldbinda sig til 50-55% samdráttar í samfélagslosun fyrir árið 2035 og 41% samdráttar fyrir árið 2030. Báðar tölur miða við losun árið 2005. Ef markmiðin eru hins vegar miðuð við heildarlosun Íslands er samdrátturinn ekki nema 9-11,5% miðað við árið 2005, samkvæmt útreikningum samtakanna.
Kolefnishlutleysi hefur ekki verið útfært í lögum um loftslagsmál. Setja má upp tvær sviðsmyndir:
Kolefnishlutleysi snýst um að nettó - samfélagslosun verði 0 árið 2040. Tæpur helmingur samdráttarins á að eiga sér stað á árunum 2035-2040 og það verður að teljast sem óhóflegar byrðar á framtíðarkynslóðir.
Kolefnishlutleysi Íslands 2040 nái til allra losunarflokka landsins - 90% af samdrættinum á að eiga sér stað á árunum 2035-2040 sem er miklu stærri áskorun.
Dýrasta aðgerðin í loftslagsmálum er og mun alltaf vera aðgerðaleysi.
Fyrir hönd Landverndar, Þorgerður María Þorbjarnardóttir
Fyrir hönd Ungra umhverfissinna, Laura Sólveig Lefort Scheefer
Fyrir hönd Náttúruverndarsamtaka Íslands, Árni Finnsson




Comments