Ögurstund er runnin upp á COP28
Nú er 11. dagur COP28 og innan við 24 klukkustundir þar til þinginu lýkur og þar til endanlegar niðurstöður liggja fyrir. Við höfum fylgst grannt með öllu ferlinu hér úti í Dúbaí og finnum að spennustigið er orðið hátt og er enn að magnast núna þegar svo stutt er eftir. Staðan er afar viðkvæm og hangir þetta allt saman á því að öllum ríkjum finnist jafnvægi og sanngirni ríkja í hinum mörgu mismunandi ákvörðunum þingsins.
Vonin um orðalag um ,,útfösun jarðefnaeldsneytis’’ því sem næst horfin
Nýjustu drög að lokasamþykkt þingsins undir Hnattrænu stöðutökunni (e. Global Stocktake) voru að birtast á vef UNFCCC og er innihaldið algjörlega óásættanlegt. Hvergi er lengur minnst á útfösun jarðefnaeldsneytis og eru það gríðarleg vonbrigði. Það eina sem sagt er í tengslum við jarðefnaeldsneyti í textanum er:
„ … enhance efforts towards substitution of unabated fossil fuels in energy systems.“
„Reducing both consumption and production of fossil fuels, in a just, orderly and equitable manner so as to achieve net zero by, before, or around 2050 in keeping with the science“
„Phasing out of inefficient fossil fuel subsidies that encourage wasteful consumption and do not address energy poverty or just transitions, as soon as possible“
Þó megum við ekki gefa upp alla von strax því ekkert er samþykkt þar til allt er samþykkt af öllum ríkjunum og gæti verið að textinn taki einhverjum breytingum áður en hann verður samþykktur á morgun. Því er algjört lykilatriði að Ísland ásamt öðrum ríkjum þrýsti eins mikið og þau mögulega geta á að sterkt orðalag um útfösun jarðefnaeldsneytis skili sér inni í lokaákvörðunina. Útfösun jarðefnaeldsneytis er lykilforsenda þess að hægt sé að takmarka hlýnun jarðar við 1,5 gráðu frá iðnbyltingu.
Mikill ágreiningur hefur verið um þetta orðalag um jarðefnaeldsneyti og eru það helst Sádi-Arabía o.fl. OPEC lönd sem hafa reynt að standa í vegi fyrir að minnst verði á útfösun á þessum helsta orsakavaldi loftslagsbreytinga í samningatextum. Yfir 2.400 fulltrúar olíufyrirtækja sem eru á COP28 hafa væntanlega einnig beitt miklum þrýstingi gegn slíku orðalagi.
Hvað gerist næst?
Forseti COP28, Dr. Sultan Al Jaber, stefnir að því að ljúka þinginu á morgun kl 11:00 að staðartíma (07:00 GMT) en það gæti verið að það dragist aðeins að samþykkja lokaákvarðanirnar. Þangað til eru Ungir umhverfissinnar reiðubúnir að veita frekari upplýsingar um stöðu mála.
Núna í kvöld verða haldnir tveir mikilvægir fundir, einn til að samþykkja ákvarðanir um mál sem þegar ríkir samstaða um (liðir um aðlögun, fjármögnun, o.fl.) og annar þar sem formenn sendinefndana munu ræða saman, m.a. um nýjasta textann undir Hnattrænu stöðutökunni.
Við munum fylgjast með því í rauntíma þegar lokaákvarðanir þingsins verða samþykktar á morgun og rýna þær hratt og vel þannig að við munum einnig geta farið yfir það allt saman eftir að þinginu lýkur á þriðjudaginn. Við búumst við að senda frá okkur aðra fréttatilkynningu þegar niðurstöður þingsins liggja fyrir og við höfum rýnt þær.
___
Frekari upplýsingar um stöðu mála á COP28 veita:
Finnur Ricart Andrason, forseti Ungra umhverfissinna.
Netfang: finnur@umhverfissinnar.is
s. 6261407
Cody Alexander Skahan, climate rep. of Ungir umhverfissinnar
Email: cody@umhverfissinnar.is
s. 6116404
Comentarios