top of page

Samþykktir Ungra umhverfissinna

I. KAFLI
​Nafn og varnarþing
 

1. gr.
Nafn félagsins er Ungir umhverfissinnar, skammstafað UU. Á ensku heitir félagið The Icelandic Youth Environmentalist Association. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.
 

 

II. KAFLI
Hlutverk og markmið


2. gr.
a) Ungir umhverfissinnar eru frjáls félagasamtök og vettvangur fyrir ungt fólk í öllum landshlutum til að láta gott af sér leiða í umhverfismálum.

b) Félagið er ungmennafélag (æskulýðsfélag) og óhagnaðardrifið.

c) Félagið er til almannaheilla.

d) Félagið er áhugafélag og hagsmunasamtök.

3. gr.
Starfsemi félagsins er málefnaleg og þverpólitísk.

4. gr.
UU lítur á fjölbreytni sem styrkleika og er félag fyrir alla unga umhverfissinna. Félagið leitast til að virkja alla félaga til góðra starfa á vegum félagsins. Félagið hefur jafnrétti, jákvæðni og virðingu fyrir öðrum að leiðarljósi, jafnt gagnvart einstaklingum og samfélags- og menningarhópum.

5. gr.
UU nálgast umhverfismál frá öllum sjónarhornum og beitir sér fyrir sjálfbærri þróun, náttúruvernd og hringrásarhagkerfi í samhengi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Nálgun félagsins er heildstæð og byggir m.a. á grunni vísinda, þekkingar á staðháttum, sjónarmiða nærsamfélags, sameiginlegra hagsmuna mannkyns og réttinda náttúrunnar.

6. gr.
UU leggur áherslu á jafnrétti kynslóða hvað varðar aðgengi að náttúruauðlindum, jafnt á Íslandi sem og á heimsvísu.

7. gr.
UU er málsvari ungmenna í umhverfismálum gagnvart stjórnvöldum, atvinnulífi og samfélagi.

8. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að:

 • Stuðla að vitundarvakningu og jafningjafræðslu ungs fólks um umhverfismál.

 • Hvetja til upplýstrar umræðu um umhverfismál í samfélaginu almennt.

 • Valdefla ungt fólk í lýðræðisþátttöku og hagsmunagæslu fyrir umhverfið og sjálfbæra þróun.

 • Veita stjórnvöldum, atvinnulífi og samfélagi aðhald varðandi stefnumótun, lagasetningu, umræðu og almennt hugarfar í tengslum við umhverfismál og réttindi náttúrunnar.

 • Berjast fyrir sjálfbærri þróun, náttúruvernd og hringrásarhagkerfi.

 • Taka virkan þátt í alþjóðasamstarfi um úrlausn hnattrænna umhverfismála á borð við loftslagsmál og vernd líffræðilegs og jarðfræðilegs fjölbreytileika.

 

9. gr. 

Nánari skilgreiningu á hlutverki og markmiði félagsins er að finna í stefnu þess og skulu stjórn, nefndir og aðrir félagar ávallt starfa í samræmi við lög þessi sem og gildandi stefnu.

 

III. KAFLI
Félagar


10. gr.
Öll sem aðhyllast markmið og stefnu félagsins geta verið félagar í Ungum umhverfissinnum.

11. gr.
Ekki er skylda að greiða árgjald til að verða félagi.
 

IV. KAFLI
Stjórn samtakanna og starfsemi þeirra


12. gr.
Kosið skal í stjórn félagsins á hverjum aðalfundi.
 

13. gr.
Stjórn skal skipuð forseta, varaforseta, gjaldkera, ritara, kynningar- og fræðslufulltrúa, loftslagsfulltrúa, náttúruverndarfulltrúa og hringrásarhagkerfisfulltrúa.
a) Forseti boðar stjórn á stjórnarfundi, útbýr fundardagskrá og stýrir fundahöldum. Forseti skal vera talsmaður félagsins innan sem utan þess.
b) Varaforseti gengur í störf formanns þegar þess er þörf og er formanni innan handar við helstu störf. Varaforseti skal einnig sjá um yfirumsjón nefnda félagsins.

 c) Gjaldkeri annast fjármál samtakanna og skal halda bókhald þeirra. Ber hann ábyrgð á ársreikningi félagsins.

 d) Ritari heldur gerðarbók stjórnar og ber ábyrgð á helstu gagnavörslu félagsins.

 e) Kynningar- og fræðslufulltrúi ber ábyrgð á helstu samfélagsmiðlum félagsins og að félagið sinni sínu fræðsluhlutverki. 

 f) Loftslagsfulltrúi hefur yfirumsjón með málaflokknum innan félagsins og er tengiliður stjórnar við Loftslagsverkfallið. 

 g) Náttúruverndarfulltrúi hefur yfirumsjón með málaflokknum innan félagsins.

 h) Hringrásarhagkerfisfulltrúi hefur yfirumsjón með málaflokknum innan félagsins.

 

14. gr. 

Framkvæmdastjórn er skipuð forseta, varaforseta og gjaldkera stjórnar. Ritari stjórnar er varamaður í framkvæmdastjórn. Kjörgengi til framkvæmdastjórnar hafa allir félagar á aldrinum 18-35 ára.

 

15. gr. - Stjórnarfundir
a) Til þess að stjórnarfundir teljist löglegir þurfa minnst helmingur stjórnarmeðlimir að vera viðstaddir.

 b) Á stjórnarfundum ræður einfaldur meirihluti atkvæða stjórnar.

 c) Stjórnarfundir skulu vera opnir félögum UU og hafa þeir málfrelsis og tillögurétt en stjórarmeðlimir hafa einir atkvæðisrétt.

 d) Krefjist meirihluti stjórnar þess skal fundur vera lokaður. 

 e) Falli atkvæði jafnt sem greidd eru á stjórnarfundum UU telst tillagan felld.

 

16. gr. - Hagsmunaárekstrar

 a) Komi upp hagsmunaárekstrar sem hamla stjórnarmeðlimum í verkefnum hefur meirihluti stjórnar leyfi til að vísa verkefni tímabundið til annars stjórnarmeðlims. Stjórn metur það hverju sinni hvað telst til hagsmunaárekstra.

 b) Stjórn UU og/eða trúnaðarfulltrúar taka við ábendingum frá félagsmönnum UU um hvað hagsmunaárekstra. Skulu ábendingar berast skriflega.

 

17. gr. - Afsagnir 

Segi stjórnarmeðlimur eða trúnaðarfulltrúi samtakanna af sér skal forseti boða til stjórnarfundar, innan tveggja vikna frá afsögn viðkomandi. Þar skal stjórn leggja mat á hvenær boða þurfi til auka- aðalfundar til að kjósa á ný í embættið.

 

18. gr. - Vantraust

 a) Vantrauststillögur skulu berast skriflega með rökstuddum hætti til stjórnar eða trúnaðarfulltrúa.

 b) Berist vantrauststillaga skal tilkynna þeim sem vantrauststillagan beinist að um hana og stjórn samtakanna skal taka hana upp á næsta fundi sínum. Í framhaldi skal stjórn boða til aukaaðalfundar. Heimilt er að hafa tillöguna nafnlausa sé þess óskað. 

 c) Til að vantrauststillagan teljist samþykkt á aukaaðalfundi þarf ¾ atkvæða félagsmanna. Atkvæðisréttur skal vera skv. 23. gr. 

19. gr - Trúnaðarfulltrúar

 a) Kjörnir skulu tveir trúnaðarfulltrúar á aðalfundi af mismunandi kynjum og skulu þeir gegna 

embætti trúnaðarfulltrúa samhliða nýkjörinni stjórn. 

 b) Félagar snúa sér til trúnaðarfulltrúa varðandi umkvartanir sínar, sem ber skylda til að taka fyrir og beina þeim málum sem upp koma í réttan farveg í samráði við tilkynnanda. 

 c) Trúnaðarfulltrúi skal vera virkur í starfi samtakanna hvort sem er í stjórn, nefndarstarfi eða á öðrum vettvangi út starfsárið. 

 d) Trúnaðarfulltrúi skal ávallt gæta fyllsta trúnaðar.

 

20. gr.

Stjórn er heimilt að greiða formanni fyrir störf sín í þágu félagsins. Einnig er henni heimilt að ráða framkvæmdastjóra og getur falið honum starfsmannahald. Stjórn er einnig heimilt að ráða fólk tímabundið til að sinna afmörkuðum verkefnum, sér í lagi ef styrkveiting fyrir verkefni liggur fyrir.

V. KAFLI
Nefndir UU og starfsemi þeirra

21. gr.
Félagar geta myndað undirnefndir með samþykki stjórnar til að efla starf félagsins. Nefndirnar vinna að fyrirfram gefnum markmiðum varðandi ákveðinn málaflokk hverju sinni.

22. gr. - Nefndir UU

 a) Fastanefndir Ungra umhverfissinna eru fjórar talsins: kynningar- og fræðslunefnd, nefnd um loftslagsmál, náttúruverndarnefnd og hringrásarhagkerfisnefnd. Forsetar fastanefnda eiga jafnframt sæti í stjórn. 

 b) Landshlutanefndir starfa eftir landsvæðum eftir því sem þurfa þykir. Varaforseti UU er tengiliður þeirra inn í stjórn. 

 c) Í hverri nefnd sitja fjórir til sex meðstjórnendur, eftir því sem forseta nefndarinnar, í samráði við stjórn, þykir viðeigandi hverju sinni. 

 d) Stjórn skal auglýsa eftir fólki í nefndirnar í síðasta lagi þremur vikum eftir að ný stjórn hefur tekið við störfum. Stjórn skal auglýsa eftir umsóknum í stöðu meðstjórnenda í allar fastanefndir í síðasta lagi þremur vikum eftir að ný stjórn hefur tekið við störfum. Þegar umsóknum hefur verið safnað velur forseti nefndar, í samráði við önnur í stjórn, fjóra til sex umsækjendur í stöðu meðstjórnenda og gegna þau þeirri stöðu út starfsárið.

 e) Forseti hverrar fastanefndar skal boða til fundar a.m.k. mánaðarlega.

23. gr. Starfsemi fastanefnda UU

 a) Kynningar- og fræðslunefnd skal sjá um samfélagsmiðla félagsins ásamt því að hafa yfirumsjón með fræðslustarfi (svo sem menntaskólakynningum og viðburðum) á vegum félagsins. Forseti nefndarinnar er kynningar- og fræðslustjóri UU.

 b) Nefnd um loftslagsmál skal hafa yfirumsjón með þeim málaflokkum sem snúast um loftslagsmál, t.a.m. Loftslagsverkfallið og innlendar- og erlendar skuldbindingar og aðgerðir stjórnvalda,fyrirtækja og stofnanna í loftslagsmálum. Forseti nefndarinnar er loftslagsfulltrúi UU. 

 c) Náttúruverndarnefnd skal fylgjast með stefnu stjórnvalda og rekstri sem kann að hafa neikvæð áhrif á verndum náttúrunnar. Starf nefndarinnar snýr m.a. að hálendinu, friðlýsingum, vatnsvernd, hafinu, landgræðslu og strandsvæðum. Forseti nefndarinnar er náttúruverndarfulltrúi UU. 

 d) Hringrásarhagkerfisnefnd . Starf nefndarinnar snýr m.a. að matvælum, skólpi og sorpi, samgöngum og orku. Forseti nefndarinnar er hringrásarhagkerfisfulltrúi UU.

 

VI. KAFLI
Fundir


24. gr.
Opin fundarhöld eru á ábyrgð stjórnar. Boða skal til opinna funda með minnst viku fyrirvara. Til þess að almennir fundir teljist löglegir þurfa minnst fimm að vera viðstödd.

25. gr.
Vilji félagar koma máli á dagskrá opinna funda skal senda það til stjórnar 3 dögum fyrir opinn fund og skal stjórn taka óskina til greina og verða við henni ef kostur er.

26. gr.
Atkvæðisrétt á almennum fundum hafa allir viðstaddir félagar. Tillaga telst samþykkt hljóti hún einfaldan meirihluta greiddra atkvæða.​

VI. KAFLI
Aðalfundur


27. gr.
a) Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa einungis þeir sem skráðir hafa verið í félagið í viku eða lengur.

b) Framboðsrétt hafa einungis félagar upp að 35 ára aldri. Forseti, varaforseti, gjaldkeri og ritari skulu hafa náð 18 ára aldri.

c) Ef fleiri en tvö framboð berast í stakt embætti stjórnar skal notast við kosningakerfi sem notar forgangsröðun. Á atkvæðaseðla skal skrifa nöfn þeirra sem kjósandi vill kjósa með forgangsröðun og merkja með tölustaf fyrir framan eftir því hvar sá kosni er í forgangsröðuninni. Ekki skal hafa tölurnar hærri en fjöldi þeirra sem eru í framboði. Ekki skal rita nöfn annarra en þeirra sem boðið hafa sig fram. Kjörstjórn skal svo telja efstu sætin á öllum gildum atkvæðaseðlum. Ef ekki er hreinn meirihluti greiddra atkvæða skal dreifa atkvæðum þess frambjóðenda sem hlaut fæst atkvæði á hina frambjóðendurna. Þá er skoðað hvaða frambjóðenda þeir kjósendur settu í annað sæti. Ef ekki er hreinn meirihluti er aftur dreift atkvæðum þar til hreinn meirihluti greiddra atkvæða lenda á einum frambjóðenda. 


28. gr.
Aðalfundur skal haldinn að vori, fyrir 1. maí ár hvert og skal boðaður á opinberum vettvangi með a.m.k. fjögurra vikna fyrirvara. Á fundinum skal farið eftir almennum fundarsköpum. Tekið skal fram í fundarboði að félagar eigi rétt á að taka þátt í fundinum á rafrænan hátt. Þess skal jafnframt getið verði tjáningarfrelsi þeirra sem þannig taka þátt takmarkað á einhvern hátt.


29. gr.
Stjórn eða 1/10 félagsmanna geta farið fram á að boðað verði til auka aðalfundar. Halda skal fundinn innan mánaðar frá því að krafa berst. Fundinn skal boða með minnst tveggja vikna fyrirvara á opinberum vettvangi.

30. gr.
Dagskrá aðalfundar:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara

 2. Skýrsla stjórnar lögð fram

 3. Reikningar lagðir fram

 4. Lagabreytingar

 5. Kosning formanns

 6. Kosning varaformanns

 7. Kosning gjaldkera

 8. Kosning ritara

 9. Kosning fræðslu- og kynningarfulltrúa

 10. Kosning loftslagsfulltrúa

 11. Kosning náttúruverndarfulltrúa

 12. Kosning hringrásarhagkerfisfulltrúa

 13. Kosning 2 trúnaðarfulltrúa

 14. Kosning 1 skoðunarmanns reikninga

 15. Önnur mál

31. gr. 

Tillaga á aðalfundi telst samþykkt hljóti hún einfaldan meirihluta greiddra atkvæða nema annað sé tekið fram í lögum eða stefnu félagsins.

 

32. gr.

Stjórn ber ábyrgð á því efni sem birtist í nafni félagsins og fer með æðsta vald félagsins milli aðalfunda.

 

33. grein

Stjórn skal senda eftirfarandi fundargögn aðalfundar á alla félaga minnst tveimur sólarhringum fyrir aðalfund:

a) Dagskrá aðalfundar

b) Ársskýrslu

c) Ársreikning

d) Lagabreytingartillögur sem stjórn hafa borist

e) Tillögur sem stjórn hafa borist um breytingar á stefnu félagsins

VIII. KAFLI
Fjármál


34. gr.
Fjármögnun félagsins er í formi styrkveitinga, framlaga, fjáraflana og tekna er af starfsemi félagsins kunna að leiða. Félagið skal þó ekki rekið í hagnaðarskyni.

35. gr.
Leggja skal ársreikninga fyrir aðalfund. Ársreikningur skal áður yfirfarinn og undirritaður af skoðunarmanni reikninga sem kjörinn var úr hópi félagsmanna á aðalfundi árið áður. Á ársreikningi skal koma fram sundurliðaður listi með upphæðum styrkja frá fyrirtækjum og stofnunum. Einnig skal tekið saman hvað félagið var styrkt mikið samanlagt af einstaklingum. Upphæðir skulu fylgja.

36. gr.
Félagar sem gera fjárhagslegar skuldbindingar án samþykkis stjórnar eru persónulega ábyrgir fyrir þeim skuldbindingum.

 

IX. KAFLI
Stefnumótun


37. gr.
Á a.m.k. fimm ára fresti, alla jafna í upphafi árs, skal stjórn boða félaga til almenns félagsfundar þar sem lagður er grunnur að stefnu UU til næstu ára. Á fundinum skal skipa vinnuhóp sem annast úrvinnslu á stefnumótunarvinnu fundarins og útbýr tillögu að stefnu í samráði við stjórn. Tillagan er lögð fyrir á næsta aðalfundi.

 

38. gr. 

Breytingar á stefnu félagsins skulu eingöngu eiga sér stað á aðalfundi. Tillögur til breytinga á stefnu skulu berast til stjórnar, minnst fimm sólarhringum fyrir aðalfund.
 

X. KAFLI
Slit

39. gr.
Ef upp kemur tillaga um slit félagsins á aðalfundi skal aðalfundur kjósa um tillöguna og þarf þá að samþykkja hana með 3/4 atkvæða félaga. Sé tillagan samþykkt skal aðalfundi slitið og boðaður nýr þar sem samþykkja þarf á ný tillöguna um slit félagsins og þá aftur með 3/4 atkvæða félaga.

40. gr.
Við slit félagsins skulu eignir félagsins renna til Landverndar.

 

XI. KAFLI
Lagabreytingar og gildistaka


41. gr.
Lagabreytingar skulu eingöngu eiga sér stað á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skulu berast til stjórnar, minnst fimm sólarhringum fyrir aðalfund.

42. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.

 


Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi félagsins 14. mars 2013 og þeim breytt á aðalfundi 5. apríl 2017, aðalfundi 14. apríl 2018, aðalfundi 15. apríl 2019, aðalfundi 19. apríl 2021, aðalfundi 10. apríl 2022 og aðalfundi 15. apríl 2023.

bottom of page