Samþykktir Ungra umhverfissinna

I. KAFLI
​Nafn og varnarþing
 

1. gr.
Nafn félagsins er Ungir umhverfissinnar, skammstafað UU. Á ensku heitir félagið The Icelandic Youth Environmentalist Association. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.
 

 

II. KAFLI
Hlutverk og markmið2. gr.
Ungir umhverfissinnar eru frjáls félagasamtök og vettvangur fyrir ungt fólk í öllum landshlutum til að láta gott af sér leiða í umhverfismálum.

3. gr.
Starfsemi félagsins er málefnaleg og þverpólitísk.

4. gr.
UU lítur á fjölbreytni sem styrkleika og er félag fyrir alla unga umhverfissinna. Félagið leitast til að virkja alla félagsmenn til góðra starfa á vegum félagsins. Félagið hefur jafnrétti, jákvæðni og virðingu fyrir öðrum að leiðarljósi, jafnt gagnvart einstaklingum og samfélags- og menningarhópum.

5. gr.
UU nálgast umhverfismál frá öllum sjónarhornum og beitir sér fyrir sjálfbærri þróun, náttúruvernd og hringrásarhagkerfi í samhengi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Nálgun félagsins er heildstæð og byggir m.a. á grunni vísinda, þekkingar á staðháttum, sjónarmiða nærsamfélags, sameiginlegra hagsmuna mannkyns og réttinda náttúrunnar.

6. gr.
UU leggur áherslu á jafnrétti kynslóða hvað varðar aðgengi að náttúruauðlindum, jafnt á Íslandi sem og á heimsvísu.

7. gr.
UU er málsvari ungmenna í umhverfismálum gagnvart stjórnvöldum, atvinnulífi og samfélagi.

8. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að:

 • Stuðla að vitundarvakningu og jafningjafræðslu ungs fólks (15-35 ára) um umhverfismál.

 • Hvetja til upplýstrar umræðu um umhverfismál í samfélaginu almennt.

 • Valdefla ungt fólk í lýðræðisþátttöku og hagsmunagæslu fyrir umhverfið og sjálfbæra þróun.

 • Veita stjórnvöldum, atvinnulífi og samfélagi aðhald varðandi stefnumótun, umræðu og almennt hugarfar í tengslum við umhverfismál og réttindi náttúrunnar.

 • Berjast fyrir sjálfbærri þróun, náttúruvernd og hringrásarhagkerfi.

 • Taka virkan þátt í alþjóðasamstarfi um úrlausn hnattrænna umhverfismála á borð við loftslagsmál og vernd náttúrulegrar fjölbreytni.

 

III. KAFLI
Störf félagsins


9. gr.
Félagsmenn geta myndað undirnefndir með samþykki stjórnar til að efla starf félagsins. Nefndirnar vinna að fyrirfram gefnum markmiðum varðandi ákveðinn málaflokk hverju sinni.
 


IV. KAFLI
Félagsmenn


10. gr.
Allir sem aðhyllast markmið og stefnu félagsins geta verið félagsmenn.

11.gr.
Ekki er skylda að greiða árgjald til að verða félagsmaður.
 


V. KAFLI
Fundir


12. gr.
Fundarhöld eru á ábyrgð stjórnar. Boða skal til opinna funda með minnst viku fyrirvara.

13. gr.
Vilji félagsmenn koma máli á dagskrá opinna funda skal senda það til stjórnar 5 dögum fyrir opinn fund og skal stjórn taka óskina til greina og verða við henni ef kostur er.

14. gr.
Atkvæðisrétt á almennum fundum hafa allir viðstaddir félagsmenn. Tillaga telst samþykkt hljóti hún meirihluta greiddra atkvæða.

VI. KAFLI
Aðalfundur


15. gr.
Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa einungis þeir sem skráðir hafa verið í félagið í viku eða lengur.

16. gr.
Aðalfundur skal haldinn að vori, fyrir 1. maí ár hvert og skal boðaður á opinberum vettvangi með a.m.k. fjögurra vikna fyrirvara. Á fundinum skal farið eftir almennum fundarsköpum.

17. gr.
Stjórn eða 1/10 félagsmanna geta farið fram á að boðað verði til auka aðalfundar. Halda skal fundinn innan mánaðar frá því að krafa berst. Fundinn skal boða með minnst tveggja vikna fyrirvara.

18. gr.
Dagskrá aðalfundar:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara

 2. Skýrsla stjórnar lögð fram

 3. Reikningar lagðir fram

 4. Lagabreytingar

 5. Kosning formanns

 6. Kosning 4 stjórnarmanna

 7. Kosning 2 varamanna

 8. Kosning 1 skoðunarmanns reikninga

 9. Önnur mál

 

VII. KAFLI
Stjórn


19. gr.
Kosið skal í stjórn félagsins á hverjum aðalfundi, sem og í stöður varamanna.

20. gr.
Stjórn skal skipuð formanni, 4 stjórnarmönnum og 2 varamönnum.
a) Formaður boðar stjórnarmenn á stjórnarfundi, útbýr fundardagskrá og stýrir fundahöldum. Formaður skal vera talsmaður félagsins innan sem utan þess.
b) Stjórnarmenn skulu skipta með sér verkum á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund. Stjórn skal að minnsta kosti skipta með sér eftirfarandi embættum: ritari og gjaldkeri en er að öðru leyti frjálst að ákveða hvernig hlutverkaskipting er innan stjórnar.

21. gr.
1. og 2. varamaður ganga í stað stjórnarmanna við forföll. Varamenn eru boðaðir á stjórnarfundi og hafa fullan tillögu- og þátttökurétt. Varamenn hafa aðeins atkvæðisrétt séu þeir staðgengill stjórnarmanns.

22. gr.
Stjórn ber ábyrgð á því efni sem birtist í nafni félagsins og fer með æðsta vald félagsins milli aðalfunda.

23. gr.
Stjórn er heimilt að ráða framkvæmdastjóra og getur falið honum starfsmannahald. Stjórn er einnig heimilt að ráða fólk tímabundið til að sinna afmörkuðum verkefnum, sér í lagi ef styrkveiting fyrir verkefni liggur fyrir.

 

VIII. KAFLI
Fjármál


24. gr.
Fjármögnun félagsins er í formi styrkveitinga, framlaga, fjáraflana og tekna er af starfsemi félagsins kunna að leiða. Félagið skal þó ekki rekið í hagnaðarskyni.

25. gr.
Leggja skal ársreikninga fyrir aðalfund. Ársreikningur skal áður yfirfarinn og undirritaður af skoðunarmanni reikninga sem kjörinn var úr hópi félagsmanna á aðalfundi árið áður.

26. gr.
Félagsmenn sem gera fjárhagslegar skuldbindingar án samþykkis stjórnar eru persónulega ábyrgir fyrir þeim skuldbindingum.

 

IX. KAFLI
Stefnumótun


27. gr.
Á þriggja ára fresti, alla jafna í upphafi árs, skal stjórn boða félagsmenn til almenns félagsfundar þar sem lagður er grunnur að stefnu UU til næstu ára. Á fundinum skal skipa vinnuhóp sem annast úrvinnslu á stefnumótunarvinnu fundarins og útbýr tillögu að stefnu í samráði við stjórn. Tillagan er lögð fyrir á næsta aðalfundi.

 

X. KAFLI
Slit

28. gr.
Ef upp kemur tillaga um slit félagsins á aðalfundi skal aðalfundur kjósa um tillöguna og þarf þá að samþykkja hana með 80% atkvæða. Sé tillagan samþykkt skal aðalfundi slitið og boðaður nýr þar sem samþykkja þarf á ný tillöguna um slit félagsins og þá aftur með 80% atkvæða.

29. gr.
Við slit félagsins skulu eignir félagsins renna til Landverndar.

 

XI. KAFLI
Lagabreytingar og gildistaka


30. gr.
Lagabreytingar skulu eingöngu eiga sér stað á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skulu berast til stjórnar, minnst tveimur vikum fyrir aðalfund. Lagabreytingatillögur eru sendar til aðildarfélaga ekki seinna en viku fyrir aðalfund.

31. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

 

 

 


Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi félagsins 14. mars 2013 og þeim breytt á aðalfundi 5. apríl 2017, aðalfundi 14. apríl 2018 og aðalfundi 15. apríl 2019.

Allir sem aðhyllast markmið og stefnu félagsins geta skráð sig og það kostar ekkert.

Með skráningu getur þú m.a. tekið þátt í nefndastarfi Ungra umhverfissinna.

Ungir@umhverfissinnar.is

Kt. 5104130240

Bankareikningur: 0115-26-010488

bx_bxl-facebook.png
bx_bxl-instagram.png
bx_bxl-twitter.png