Ungir umhverfissinnar telja orð íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum vera í hrópandi mótsögn við gjörðir þeirra. Innihald ræðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á COP28 var að mestu leyti gott en núverandi aðgerðarleysi íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum segir aðra sögu. Helstu áhersluatriðin úr ræðu forsætisráðherra (flutt í dag rétt fyrir kl. 12:00 að staðartíma) eru að:
Stenft sé að takmörkun hlýnunar jarðar við 1,5 gráðu frá iðnbyltingu.
Stefnt sé að útfösun jarðefnaeldsneytis og ríkisstyrkja til þessa iðnaðar.
Núverandi ríkisstjórn muni ekki veita nein leyfi til vinnslu jarðefnaeldsneytis innan lögsögu Íslands.
Stuðla þurfi að framleiðslu matvæla með lægra kolefnisfótspor.
Þrátt fyrir að Ísland sé ekki meðal þeirra landa sem losa mest hafi smærri ríki einnig mikilvægt hlutverk að leika.
Loftslagsáherslur verði meira áberandi í þróunarsamvinnustefnu Íslands á komandi fjórum árum.
Framlag Íslands í loftslagshamfarasjóðinn um töp og tjón verði $600.000.
Réttur fólks til heilnæms umhverfis teljist sem mannréttindi og að allar ákvarðanir þurfi að taka á þeim grundvelli.
Nauðsynlegt sé að skýr skilaboð komi út úr COP28 um að við (ríki heims) muni gera það sem þarf.
Ungir umhverfissinnar fagna innilega metnaðarfullu framlagi Íslands í loftslagshamfarasjóðinn (e. Loss and Damage Fund) sem er hlutfallslega hærra en önnur framlög sem borist hafa til þessa ef litið er á upphæð á hvern íbúa.
Skilaboð forsætisráðherra Íslands til leiðtoga heims um útfösun jarðefnaeldsneytis, takmörkun hlýnunar jarðar við 1,5 gráðu og rétt alls fólks til heilnæms umhverfis eru mikilvæg. Markmið og aðgerðir íslenskra stjórnvalda geta hins vegar ekki talist stuðla að því að takmarka hlýnun jarðar við 1,5 gráðu.
Íslensk stjórnvöld þurfa því að hugsa sinn gang og grípa til mun róttækari loftslagsaðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi ef þau vilja eiga innistæðu fyrir slíkum skilaboðum á alþjóðavettvangi. Eins og forsætisráðherra bendir réttilega á, þá gegna smærri ríki sem þó eru í forréttindastöðu mikilvægu hlutverki og Ísland þarf að standa undir þeirri ábyrgð.
___
Frekari upplýsingar um COP28 veita:
Finnur Ricart Andrason, forseti Ungra umhverfissinna.
Netfang: finnur@umhverfissinnar.is
s. 6261407
Cody Alexander Skahan, climate rep. of Ungir umhverfissinnar
Email: cody@umhverfissinnar.is
s. 6116404
Comentários