top of page

Umsögn Ungra umhverfissinna við drög að reglugerð um loftslagsráð

Umsögn þessi var send inn í gegn um Samráðsgátt þann 6. febrúar 2024.

---


Ungir umhverfissinnar hafa kynnt sér drög að reglugerð um loftslagsráð og vilja koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.


Sérfræðingaráð ekki tryggt


Sérfræðingaráð er eina ásættanlega tegund loftslagsráðs ef það á að veita stjórnvöldum fullnægjandi aðhald í stefnumótun og ákvarðanatöku um loftslagsmál. Þau drög sem nú liggja fyrir tryggja ekki á fullnægjandi hátt að Loftslagsráð Íslands verði skipað sérfræðingum. Þetta er vegna þess að áfram munu tilnefningar berast frá hópum hagaðila. Þó að hafa eigi til hliðsjónar ákveðin hæfniviðmið þá skortir ákvæði til að tryggja að fulltrúar ráðsins starfi ekki í þágu hagsmuna þeirra aðila sem tilnefndu þá


Ef þessu tilnefningufyrirkomulagi verður ekki breytt skal koma skýrt fram í reglugerðinni að fulltrúar ráðsins skulu starfa sem einstaklingar og á grundvelli þeirrar sérfræðiþekkingar sem þeir búa yfir en ekki sem fulltrúar síns hagsmunahóps.


Jafnvægi ráðsins


Ekki er skýrt hvernig tryggja á að ójafnvægi skapist ekki er ráðherra skipar þá 3 fulltrúa sem ekki verða tilnefndir af hagaðilum. Auðvitað mun skipan þessara þriggja fulltrúa taka mið af hæfniviðmiðunum en hætta er á að bakgrunnur þeirra sé sá sami eða mjög svipaður. Í öðrum orðum, hætta er á að fjórir af níu aðilum í ráðinu komi úr sömu áttinni eða frá sama hagaðila ef ekki verður sett inn ákvæði í reglugerðina um að passa skuli að jafnvægi ríki þegar horft er til bakgrunns fulltrúa ráðsins. Þetta er nauðsynlegt þar sem núverandi drög tryggja ekki að ráðið sé sérfræðingaráð.


Uppfylling hæfniviðmiða 


Ekki er skýrt hvernig verður tryggt að þeir fulltrúar sem verða tilnefndir og skipaðir í ráðið uppfylli hæfniviðmiðin sem kveðið er á um í 5. grein reglugerðarinnar. Þau sérfræðisvið sem talin eru upp eru mörg hver mjög víð. Hvaða kríteríur liggja þar til grundvallar? Hver mun meta og skera úr um hvort tilnefndir aðilar uppfylli hæfniviðmiðin að nógu miklu leyti?


Fulltrúa ungs fólks skortir


Eins og skipað hefur verið í Loftslagsráð Íslands til þessa hefur fulltrúi ungs fólks ávallt átt sæti í því. Gríðarlega mikilvægt er að slíkur fulltrúi sitji í ráðinu því aðgerðir í loftslagsmálum snúast ekki síst um að tryggja ungu fólki lífvænlega framtíð. Allar ákvarðanir sem teknar eru í tengslum við loftslagsmál næstu ári og áratugi munu móta á mjög afgerandi hátt þá framtíð og það samfélag sem unga fólk dagsins í dag mun búa í allan sína æfi. 


Ungir umhverfissinnar vilja að fulltrúi ungs fólks verði skipaður í ráðið, þ.e. einstaklingur undir 35 ára aldri. Þessi einstaklingur mun eðli málsins samkvæmt hafa þekkingu á einu af þeim sjö sviðum sem talin eru upp í greininni um hæfniviðmið en mikilvægt er að hann hafi einnig djúpan skilning á sjónarmiðum ungs fólks á Íslandi í tengslum við loftslagsmál. 


Hlutverk og umboð ráðsins ekki skýrt 


Hvorki lög um loftslagsmál né núverandi drög að reglugerð um loftslagsráð skilgreina á fullnægjandi hátt hlutverk og umboð ráðsins. Í fyrsta lagi vilja Ungir umhverfissinnar sjá skýrt orðalag um að ráðið eigi að vera fullkomlega sjálfstætt, þ.e. óháð stjórnvöldum og hvaða öðrum hagaðilum sem er. Ráðherrar eiga ekki að geta falið ráðinu að vinna verkefni fyrir sig heldur á ráðið að starfa sjálfstætt og leggja mat á það sjálft á hverjum tíma hvað þeim þykir mikilvægast að greina eða leggja til. 


Í öðru lagi viljum við að ráðleggingar ráðsins séu bindandi (þ.e. ef tekst að skapa raunverulegt sérfræðingaráð) og að ráðherra beri að gefa skýrslu gagnvart Alþingi ef bregða á frá þessum bindandi ráðleggingum. Þetta ætti að auka tíðni þess að ákvarðanataka á sviði loftslagsmála sé byggð fyrst og fremst á bestu fáanlegu vísindum.


Undarleg stjórnsýsla og skrýtin tímalína


Að lokum, þá finnst Ungum umhverfissinnum sérkennilega staðið að stjórnsýslunni í kring um skipan nýs loftslagsráðs. Samkvæmt lögum hefði átt að skipa nýtt ráð strax snemma í fyrra haust. Þetta var þó ekki gert og mun því líða meira en hálft ár frá því að skipa átti nýtt ráð þar til það verður raunverulega skipað. 


Einnig er sérkennilegt að skipa eigi nýtt ráð áður en lögum um loftslagsmál, þ.m.t. greinum um loftslagsráð, verður breytt. Þetta stendur til skv. stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar og mun væntanlega verða að veruleika núna á vorþingi eða á haust þingi. Fyrst svo langt hefur hvort sem er liðið frá því að skipa átti nýtt loftslagsráð, hvers vegna á að gera það svo nálægt lagabreytingum um loftslagsráð? Mun rökréttara væri að lagabreytingar um loftslagsráð myndu eiga sér stað áður en nýtt ráð verður skipað.


Ef þessi reglugerð verður samþykkt á næstu vikum eða mánuðum mun skipun nýs loftslagsráðs vera í gildi þar til ársins 2028 sem er einungis tveimur árum frá árinu 2030 sem er stærsta skuldbindingaár Íslands til þessa í loftslagsmálum og er því hætta á að skuldbindingar og markmið Íslands náist ekki ef ekki næst að skipa sérfræðingaráð.---

Fyrir hönd Ungra umhverfissinna,

Finnur Ricart Andrason, forseti UU

Cody Alexander Skahan, loftslagsfulltrúi UU

Comments


bottom of page