Nú er kjörtímabil Alþingis hálfnað og því hrinda Ungir umhverfissinnar af stað verkefninu Tunglið til að meta árangur ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum á undanförnum tveimur árum.
Tunglið er framhaldsverkefni Sólarinnar, einkunnagjöf Ungra umhverfissinna fyrir Alþingiskosningar 2021, þar sem stefnur stjórnmálaflokkana voru metnar út frá metnaði þeirra í umhverfismálum. Sólin hafði það markmið að meta stefnur og loforð flokkanna, en hafa þeir staðið við einhver þessara loforða?
Markmið Tunglsins er að meta árangur ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum það sem af er kjörtímabilsins út frá gjörðum þeirra frekar en orðum þar sem aðgerðir eru það sem skilar raunverulegum árangri en ekki loforð. Tilgangur þessa verkefnis er þríþættur:
Að hvetja ríkisstjórnina til að standa við og ganga lengra en eigin stefnur í umhverfismálum.
Að upplýsa almenning um hvort ríkisstjórnin hafi staðið við stefnur sínar.
Að lyfta rödd ungs fólks í umræðunni um ákvarðanatöku sem tengist umhverfismálum.
Tunglið hefur verið í mótun frá því í lok maí þessa árs þegar við sendum frá okkur fyrri fréttatilkynningu um verkefnið. Vinna við útfærslu verkefnisins var leidd af meðlimum Ungra umhverfissinna og var álit nokkurra utanaðkomandi sérfræðinga einnig fengið. Fundað var með nokkrum þingflokkum í kringum mánaðarmót september og október til að kynna fyrri drög verkefnisins og gefa flokkunum færi á að spyrja spurninga og leggja fram athugasemdir.
Nú er umgjörðin fullkláruð og má finna ítarlegri lýsingu á verkefninu hér. Einkunnagjöfinni verður háttað þannig að ríkisstjórnin verður metin sem ein heild og notast verður við aðlagaða útgáfu af kvarðanum sem notaður var í Sólinni.
Upplýsingar um Tunglið hafa verið sendar á alla þingmenn og þingflokka og opnað hefur verið fyrir innsendingar á gögnum frá ríkisstjórnarflokkunum. Þau gögn sem tekin verða til greina eru afmörkuð við lagafrumvörp, þingsályktunartillögur, opinberar stefnur stjórnarráðsins og opinberar aðgerðaáætlanir stjórnarráðsins. Gögnin þurfa að hafa verið gefin út á fyrri helmingi kjörtímabilsins, þ.e. milli 23. nóvember 2021 og 4. desember 2023. Mat á gögnunum hefst um leið og þau berast.
Fjórir tímabundnir starfsmenn hafa verið ráðnir til að sjá um m.a. gagnavinnslu, grafíska hönnun og forritun á vefsíðu. Líkt og í Sólinni verður fyllsta hlutleysis og fagmennsku gætt í öllu ferli Tunglsins.
Niðurstöður Tunglsins, einkunnagjöf Ungra umhverfissinna á miðju kjörtímabili 2023, verða kynntar snemma á árinu 2024.
___
Frekari upplýsingar um Tunglið veitir:
Finnur Ricart Andrason, forseti Ungra umhverfissinna
Netfang: finnur@umhverfissinnar.is
s. 6261407
Comments