Forseti
Tinna Hallgrímsdóttir Þar sem ég mun ekki sækjast eftir endurkjöri á komandi aðalfundi er vafalaust tilefni til að líta ekki einungis yfir stjórnarárið sem nú er senn að ljúka, heldur fimm ára setu mína í stjórn þessa magnaða félags. Og hvað við höfum vaxið á fimm árum sem málsvari umhverfisins og ungs fólks, og hvað ég hef vaxið sjálf og dafnað vegna þeirra forréttinda að fá að sinna ástríðu minni, hafa jákvæð áhrif og valdefla önnur til áhrifa jafnóðum. Ég hef haft það að leiðarljósi í stjórnarsetu minni að besti leiðtoginn er sá sem valdeflir aðra og býr þannig til fleiri leiðtoga. Í gegnum starf félagsins hefur svo mikið af mögnuðu fólki risið til áhrifa og gert heiminn að betri stað en áður. En félagið snýst ekki einungis um hagsmunagæslu heldur hefur það einnig skapað samfélag fyrir unga umhverfissinna. Það er nefnilega ómetanlegt að kynnast og fá stuðning frá fólki sem brennur fyrir sama málstað og man sjálft, og ekki síst að hafa skilningsríka öxl til að gráta á við lestur nýjustu loftslagsskýrslu IPCC. Ég bý því ekki síst að sterkum vinaböndum, eftir veru mína í félaginu, sem munu endast út ævina.
Þessi fimm ár hafa vissulega liðið hratt, en aldrei hefði mig grunað þegar ég bauð mig fyrst fram í stjórn að félagið myndi hafa náð þeim árangri að vera jafn virtur álitsgjafi í samfélags- og faglegri umræðu um umhverfismál og raun ber vitni. Ég er því ótrúlega spennt að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir þetta einstaka félag og hvet öll áhugasöm að bjóða sig fram í stjórn! Munið bara að það er ekki skilyrði að vera umhverfissérfræðingur til að taka þátt, það var ég nú aldeilis ekki þegar ég byrjaði, en þau sem búa yfir ástríðu, metnaði og einskærum vilja til að gera heiminn að betri stað munu svo sannarlega finna sér samastað í Ungum umhverfissinnum.
Varaforseti
Egill Ö. Hermannsson
Ég tel mitt framboð til stjórnar Ungra umhverfissinna árið 2020 hafa verið ein besta ákvörðun sem ég hef tekið. Ég var og er enginn sérstakur sérfræðingur í umhverfismálum enda hef ég vini mína innan stjórnar og utan sem sjá um það. Ég hef þó geta notað mína þekkingu og reynslu á öðrum sviðum til þess að hjálpa félaginu og málstaðnum. Margt hefur breyst síðan ég byrjaði en þar á meðal eru t.d: ný vefsíða og skráningarform, ný tölvupóstföng, viðbót trúnaðarfulltrúa, viðbót embætta í stjórnarkjör, nýjar fastanefndir, gríðarleg fjölgun félaga og fylgjenda, margföldun tekna, styrkjakerfi, nýja samstarfsaðila í Loftslagsverkfallinu, miklu betra aðgengi að ráðafólki, og fljótlega fær félagið glænýja stefnu og skráningu sem almannaheillasamtök. Félagið er með þessum grunni í miklu sóknarfæri til þess að hafa enn meiri áhrif á stefnumótun stjórnvalda til frambúðar. Ég óska komandi stjórn góðrar velgengni í sínum störfum.
Gjaldkeri
Snjólaug Heimisdóttir
Ég er virkilega anægð að hafa boðið mig fram í stjórn Ungra Umhverfissinna og eru þar margar ástæður að baki. Það sem mig langar helst að nefna er tækifærið að fá að kynnast öllu þessu frábæra fólki sem býr yfir ótrúlegum drifkrafti þegar kemur að því að vilja bæta heiminn fyrir okkur öll. Ég er ótrúlega stolt af þeirri vinnu sem félagið sinnir og get ekki beðið eftir að fylgjast með framvindu félagsins næstu árin. Þvílíkur kraftur, dugnaður og seigla sem meðlimir félagsins búa yfir og verð ég ævinlega þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þessum mögnuðu einstaklingum.
Ritari
Brynja Þorsteinsdóttir
Ég er mjög ánægð að hafa boðið mig fram! Ég hef lært ýmislegt og kom af stað ýmsum skemmtilegum verkefnum sem ég fékk algjört frelsi og traust til að sinna. Starfið í stjórninni hefur skapað gott tengslanet í kringum mig sem samanstendur af góðu og ungu fólki sem brennur fyrir því að hafa góð áhrif. Ég lít til baka með þakklæti og hvet alla sem hafa áhuga á að taka þátt að bjóða sig fram í stjórn! Ég sjálf var í raun nýskráð í félagið þegar ég bauð mig fram, lítil reynsla ætti því ekki að stoppa ykkur. Það er ávallt gífurlegur lærdómur í því að taka af skarið og láta vaða. Bjóðið ykkar fram og sama hvað þá munu þið finna ykkar stað innan félagsins.
Hringrásarhagkerfisfulltrúi
Kolbrún Fríða Hrafnkelsdóttir
Ég er rosalega þakklát fyrir þetta líðandi ár sem hringrásarhagkerfisfulltrúi UU. Ég er búin að læra svo ótrúlega mikið og fá svo mikið af spennandi tækifærum. Ég er einnig búin að kynnast svo mörgum snillingum sem eru svo fróð og ástríðufull af umhverfismálum eins og ég sjálf er. Það voru svo mörg frábær tækifæri að það var ekki hægt að taka þeim öllum þannig ég lærði líka að vera betri í að taka ekki of mikið að mér. Ég er líka ótrúlega stolt að hafa verið í stjórn hjá svona frábæru félagi sem hefur aflað sér mikillar virðingar í samfélaginu vegna þess flotta starfs sem við öll höfum staðið að undanfarin ár. Ég hef virkilega mikla ástríðu fyrir hringrásarhagkerfinu og trúi á að það verði ein helsta lausnin við umhverfiskrísunni. Það er svo mörg tækifæri hvert hægt er að taka þessa stöðu svo þetta er frábært því maður fær líka að vera skapandi og með frumkvæði.
Loftslagsfulltrúi
Finnur Ricart Andrason
Hvílíkt ár! Þegar ég bauð mig fram í stjórn UU fyrir tveimur árum vissi ég ekkert út í hvað ég væri að koma mér en þessi tvö ár sem ég hef setið í stjórn síðan hafa verið ótrúlega skemmtileg og gefandi. Ég hef lært ótal margt nýtt, kynnst mörgum nýjum og eignast góða vini. Það að fá að vinna með ykkur öllum að því að vera málsvari náttúrunnar og gera heiminn betri er það besta sem ég veit og ég hlakka til að halda því áfram. Við erum á góðri siglingu og ég hef mikla trú á því að við getum haldið áfram að bæta okkur sem félag og náð ennþá meiri árangri á komandi starfsárum!
Náttúruverndarfulltrúi
Ástrós Eva Ársælsdóttir
Ég skráði mig í félagið fyrir um 3 árum án þess að vita í rauninni hvað það stóð fyrir eða hvernig verkefni meðlimir þess væru að vinna að. Á þessum tíma var ég nýbyrjuð í BSc í líffræði og þegar ég lít til baka held ég að það hafi aðallega verið nafn félagsins og möguleg tengsl þess við námið mitt sem heillaði mig. Ég ákvað að bjóða mig fram í meðstjórn i maí 2021 og fékk þannig að taka aðeins meiri þátt í verkefnum sem voru í gangi þá. Í apríl í fyrra tók ég svo við sem náttúruverndarfulltrúi og vá hvað ég er ánægð með að hafa gert það. Á síðastliðnu ári er ég búin að mynda mjög dýrmæt tengsl og kynnast svo mögnuðu fólki sem er að gera sitt besta að standa vörð um heilbrigði náttúrunnar og samfélagsins, flestir í sjálfboðastarfi, án þess að fá greidda krónu fyrir. Félagið er búið að vaxa og dafna á síðustu árum og á bara eftir að gera það enn meira á komandi árum og ég er mjög spennt að fylgjast með hvað framtíðin ber í skauti.
コメント