top of page

Samantekt frá Landsfundi UU um loftslagsmál

Þessi samantekt var unnin upp úr umræðum sem áttu sér stað á Landsfundi Ungra umhverfissinna um loftslagsmál sem var haldinn í Hveragerði 6.-8. janúar 2023. Samantektin var unnin af sérstakri Ritnefnd sem var kjörin í lok Landsfundarins og á hún að endurspegla sjónarmið þátttakenda fundarins sem komu fram í umræðum þeirra undir þremur þemum: Ábyrgð og valdhafar, Loftslagsréttlæti, og Lausnir við loftslagsvánni. Þessi afurð verður nýtt til að móta nýja stefnu félagsins í loftslagsmálum en tekið skal fram að samantektin endurspeglar ekki endilega stefnu félagsins í þessum málaflokki.


Fulltrúar í ritnefnd: Bára Örk Melsted, Esjar Didziokas, Evlalía Kolbrún Ágústsdóttir, Finnur Ricart Andrason, Inga Huld Ármann, Þorgerður María Þorbjarnardóttir.

 

Ábyrgð og valdhafar


Rót loftslagskrísunnar er of mikill ágangur á náttúrulegar auðlindir og of mikil neysla sem veldur losun gróðurhúsalofttegunda. Það er erfitt að setja ábyrgðina á einstaka aðila þegar kemur að loftslagsbreytingum. Samfélagið okkar er drifið áfram sem neyslusamfélag og það gerir það að verkum að allt þarf að gerast hratt hvort sem um fjölmiðlaumfjöllun, eða fjárhagslegan ágóða er að ræða. Það gagnast stjórnvöldum hvað áreiðanlegar upplýsingar eru óaðgengilegar og fjölmiðlar detta oft í kranablaðamennsku í kjölfarið. Í stað þess að beita sér af alvöru og taka kjarkaðar ákvarðanir hefur afneitun loftslagsbreytinga farið úr því að vera afneitun á vísindunum yfir í að vera blekkingarleikur þar sem lausnum er teflt fram sem ekki ná utan um umfang loftslagsbreytinga. Mikil áhersla er lögð á tæknilausnir sem oft á tíðum krefjast öðruvísi álagi á náttúruna en losun kolefnis. Slíkar lausnir gera ráð fyrir endalausum hagvexti og það skortir framtíðarsýn sem gerir ráð fyrir meira jafnvægi í hagkerfinu.


Valdhafar sem geta verið stjórnmálamenn sem og annað áhrifafólk úr heimi viðskipta og menningar, notfæra sér upplýsingaóreiðu í málaflokknum til þess að geta einbeitt sér að öðrum hlutum og geta auðveldlega rammað þá inn sem aðgerðir í þágu loftslags og náttúru. Þessu veldur ekki endilega illur vilji heldur getur vandamálið bæði virst yfirþyrmandi og svo getur verið að viðkomandi séu settar þröngar skorður í stöðu sinni.


Það skortir aukið gagnsæi hjá bæði stjórnvöldum og atvinnulífi svo ágóði af aðgerðum í þágu loftslags og náttúru liggi í augum uppi. Mikilvægt er að sjá ekki valdhafa sem óvin eða skúrka heldur vinna saman. Við getum haft áhrif allt í kringum okkur. Einstaklingar geta haft áhrif, en mikilvægt er að skýrt sé fyrir öllum hvar ábyrgðin liggur. Fræðslu um loftslagsmálefni er ábótavant og sú sem í boði er, er óaðgengileg.


Loftslagsréttlæti


Misskipting innan og milli samfélaga, jaðarsettir hópar, siðferði, ábyrgð, lýðræði, þátttaka í ákvarðanatöku, og réttlát umskipti voru meðal helstu umræðupunkta sem komu upp í umræðunum undir þemanu um loftslagsréttlæti. Flest voru sammála um að djúpstæð misskipting í heiminum væri ein helsta rót loftslagskrísunnar og þess óréttlætis sem henni fylgir, og að það þyrfti að uppræta þessa kerfisbundnu misskiptingu til að takast á við loftslagsbreytingar á fullnægjandi og réttlátan hátt.


Þátttakendum þótti ábyrgðin liggja að mestu leyti hjá stjórnvöldum og öðrum valdhöfum. Ljóst var að þátttakendur töldu nauðsynlegt að breyta hagkerfinu okkar og ákveðnum samfélagsgildum með réttlæti að leiðarljósi. Mörgum fannst nauðsynlegt að auka þátttöku almennings, sérstaklega jaðarsettra hópa, í ákvarðanatöku sem snýr að loftslagsmálum til að dreifa völdunum sem liggja nú að miklu leyti hjá þeim sem hafa gert mest til að valda loftslagsbreytingum.


Fjölbreyttum tilfinningum var lýst í samhengi við loftslagsréttlæti: sorg vegna þeirra afleiðinga sem fólk er þegar að verða fyrir, skömm vegna mikillar losunar Íslands, og reiði vegna aðgerðarleysi stjórnvalda. Einnig var rætt um hvaða tilfinningar væru líklegastar til að hafa áhrif á viðhorf fólks og hvers konar orðræða gæti hvatt fleiri til að taka þátt í að stuðla að loftslagsréttlæti. Mikilvægt er að skapa pláss fyrir umræður um siðferði og réttlæti í samhengi við loftslagsmál.


Starf UU tekur nú þegar mið af loftslagsréttlæti að því leyti að við:

 • reynum að hafa aðgengi fyrir öll að leiðarljósi - bæði á eigin viðburðum en líka þegar við sendum inn athugasemdir við lagafrumvörp sem taka ekki tillit til slíkra sjónarmiða,

 • og leggjum mikla áherslu á að hugað sé vel að réttlátum umskiptum þegar stjórnvöld ráðast í loftslagsaðgerðir.


Ungt fólk getur unnið að auknu loftslagsréttlæti með ýmsum hætti, t.d. með því að:

 • eiga samtal við fjölbreytta aðila í samfélaginu til að vera meðvituð um fjölbreytt sjónarmið,

 • passa að öllum sé gert kleift að taka þátt í umræðum og ákvörðunum, sérstaklega þeim sem finna mest fyrir afleiðingunum,

 • og ýta undir raddir þeirra sem eru í jaðarsettum hópum.


Lausnir


Grundvöllur lausna liggur í breyttri neysluhegðun og hvernig farið er með auðlindir sem og pólitískum kerfisbreytingum. Þörf er á heildrænni sýn um breytt samfélag og fara þarf varlega í að skerða ekki frelsi fólks og að aðgerðir bitni ekki mest á láglauna fólki og jaðarsettum hópum.


Umræða um loftslagsmál er mikilvæg en vekur oft upp neikvæðar tilfinningar svo áhersla ætti að vera á jákvæðri umræðu. Menntun og fræðsla um loftslagsmál er með því mikilvægara en hún þarf að vera aðgengileg og skýr, taka inn mismunandi sjónarhorn og ætti að koma að á öllum menntastigum og víðar í samfélaginu. Það væri t.d. Hægt að leggja meira upp úr minni auglýsingum sem koma mikilvægum staðreyndum á framfæri, líka á léttari nótum. Það þarf að minnka fjarlægð á milli fólks í forréttindastöðum og þeirra sem verða mest fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Með því að setja áhrif hamfarahlýnunnar í samhengi við líf fólks, og upphefja sögur þeirra sem upplifa hörmungarnar milliliðalaust minnkum við fjarlægðina.


Mikilvægt er að huga að náttúrumiðuðum lausnum sem huga að líffræðilegum fjölbreytileika en gera þarf grein fyrir að ekki er til ein fullkomin lausn. Tilraunastarfsemi með sjálfbæran og breyttan landbúnað er hugmynd að lausn sem þarf að leggja meiri tíma og pening í. Það er mikilvægt að huga að því hvernig er hægt að virkja bændur í umhverfismálum og rækta og efla íslenska flóru. Gott væri að búa til hvata fyrir fólk til að leggja sig fram við umhverfisvænan landbúnað, að endurheimta votlendi og finna leið til að skapa græn störf í landbúnaði. Aðlögunaraðgerðir er eitthvað sem við þurfum að færa meira inn í umræðuna. Pláss þarf að vera fyrir öll í loftslagsbaráttunni og huga þarf að loftslagsréttlæti sérstaklega í alþjóðlegu samhengi.


Náttúrumiðaðar lausnir

Náttúrumiðaðar lausnir þurfa meira pláss í umræðunni. Huga þarf að líffræðilegum fjölbreytileika. Það er engin ein rétt lausn og skoða þarf kosti og galla hverrar lausnar. Samræmt kerfi til að meta hverja lausn og hverjar afleiðingar eru miðað við aðrar lausnir.


Menntun og fræðsla

 • Frá mörgum hliðum. Þarf að vera sett fram á skýran hátt og með skýra tengingu við loftslagsmál.

 • Meiri fræðsla um sjálfbærni í menntakerfinu á öllum stigum inn í öllum fögum.

 • Aðgengi að upplýsingum. Misjafnar leiðir eru misárangursríkar, dramatískt samhengi getur gert gott eða illt.

 • Oft erfitt að skilja upplýsingar þegar það er mikið af tölulegum og flóknum upplýsingum.

Breytt neysluhegðun (minni neysla)

Hvernig sættum við okkur við að neyta minna?Losun er ekki óhjákvæmileg. Hvati til að breyta lifnaðarháttum. Notkun annara mælikvarða á velsæld en GDP. Hvernig getum við nýtt okruna á gagnlegri hátt (t.d. Í matvælaframleiðslu)


Kerfisbreytingar, fjármál og hagkerfið

Þarf að fara varlega í aðgerðir sem skerða frelsi fólks. Þörf á raunhæfri aðgerðaráætlun svo við getum séð fyrir okkur hvernig samfélag byggt á öðrum kerfum gæti litið út. Réttlát skipting fjármagns í loftslagsaðgerðum.

Ungt fólk og skapandi lausnir:

Fjölbreytni mikilvæg í starfinu, fyrirmyndir gagnlegar en þarf líka að vera pláss fyrir aðra. Það eru margar tegundir aktivisma og engin ein leið er endilega rétt. Hvað getum við lært af fyrri hreyfingum? Hvernig hlúum við að sjálfbærni aktivisma og nýtum skipulag sem best án þess að hamla sköpunargleði.


Tækninýjungar

Það þarf að stuðla að nýsköpun, og breyta hlutum í samfélaginu hægt og rólega, ýta undir umhverfisvæna nýsköpun með því að fjárfesta í henni og lausnunum sem fólk finnur upp á.


Viðhorf og tilfinningar

Mjög erfitt að tala um loftslagsmál sem vekur upp mikið af neikvæðum tilfinningum. Það þurfa að vera leiðir til að vinna úr þeim tilfinningum en líka leggja áherslu á að halda umræðu á jákvæðum tónum en fá samt fólk til að taka hlutina alvarlega.


Stjórnmál og lýðræði

Stjórnmálafólk þyrfti að geta séð afleiðingar loftslagsaðgerða með eigin augum. Sumar hömlur geta aukið frelsi á annan hátt (aðgengi að almenningssamgöngum, stytting vinnuvikunar). Aðgerðir mega ekki bitna mest á láglaunafólki. Möguleikar í aðgerðum eins og kolefnisskatti og universal basic income.


Alþjóðlegt samhengi

Ættum að vera meira meðvituð um áhrif okkar á aðra heimshluta og hvernig aðstæður eru þar. Minka þarf græðgi og standarda okkar heimshluta. Við þurfum líka að venjast drastískum breytingum.

 

Tillaga ritnefndar að stefnu UU í loftslagsmálum


Þessi tillaga var unnin af sérstakri Ritnefnd sem var kjörin í lok Landsfundar UU um loftslagsmál sem var haldinn í Hveragerði 6.-8. Janúar 2023. Tilgangur þessarar tillögu að stefnu er að vera innlegg í mótun nýrrar stefnu fyrir UU en tekið skal fram að þessi tillaga endurspeglar ekki endilega stefnu félagsins í þessum málaflokki.


Ábyrgð og valdhafar

 • Valdhafar eru stjórnmálafólk og áhrifamikið fólk í heimi viðskipta og menningar.

 • Einstaklingar bera sína ábyrgð í krísu loftslags og náttúru. Valdhafar skulu bera meiri þunga af ábyrgðinni en þau bera ábyrgð á því að gera almenningi það auðveldara að taka umhverfisvænar ákvarðanir. Ungir umhverfissinnar þrýsta á valdhafa til þess að taka ákvarðanir sem eru raunverulega loftslagi og náttúru til góða.

 • Til þess að almenningur sé upplýstur um ávinning umhverfisvænna aðgerða er mikilvægt að valdhafar notfæri sér bestu fáanlegu upplýsingar í ákvarðanatöku og geri þær upplýsingar jafnframt aðgengilegar almenningi.

 • Ungir umhverfissinnar eru þverpólitísk samtök og hvetja allt pólitíska litrófið til dáða í málaflokknum.

 • Samtökin telja mikilvægt að loftslags og umhverfismál séu höfð að grunni í allri ákvarðanatöku, ekki eingöngu í því ráðuneyti sem hefur málaflokkinn sérstaklega á sínu borði.

 • Samtökin telja hagkerfi sem gerir ráð fyrir endalausum vexti ekki raunhæft og hvetja ávallt til hagkerfis-hugsunar sem leitar að frekara jafnvægi milli manns og náttúru.


Loftslagsréttlæti


Öll ákvarðanataka stjórnvalda og annarra valdhafa sem snýr að loftslagsmálum á að taka mið af réttlætissjónarmiðum. Þegar kemur að hnattræna samhenginu telja Ungir umhverfissinnar að íslensk stjórnvöld þurfi að auka samdrátt í losun GHL verulega til að framlag okkar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum sé sanngjarnt. Ísland er ríkt land með hlutfallslega háa losun og ber því siðferðilega ábyrgð á að draga meira úr losun til að takmarka óréttlætið sem afleiðingar loftslagsbreytinga valda í þeim heimshlutum sem hafa valdið sem minnstri losun. Þegar kemur að innlenda samhenginu er nauðsynlegt að loftslagsaðgerðir komi ekki niður á tekjulægra fólki sem og öðrum jaðarsettum hópum. Þessir hópar hafa oftast gert minna til að valda loftslagsbreytingum samanborði við aðra hópa samfélagsins og hafa sömuleiðis minni getu til að takast á við breytingar svo sem gjaldhækkanir. Einnig er réttur fólks til að velja sér svæði til búsetu mikilvægur.


Mikilvægt er að virða fjölbreytt þekkingarkerfi í almennri umræðu og í ákvarðanatöku og að réttinda frumbyggja sé gætt.


Lausnir


UU ættu að beita sér fyrir aukinni fræðslu og menntun um loftslagsmál á öllum stigum samfélagsins, sem er aðgengileg og skýr öllum. UU ætti að stuðla að heildrænni sýn um breytt samfélag og jákvæðri umræðu án þess að draga úr alvarleika málsins, upphefja þarf kosti við breytta heildarsýn sem stuðla að betri lífsgæðum. Þá er líka mikilvægt að kynna og nota réttmæta, áreiðanlega og óhlutdræga kvarða á velsæld (í stað GDP). Velsældar vísar ættu að vera notaðir sem megin mælikvarði á velgengi samfélagsins. UU ætti að hvetja til breyttrar neysluhegðunar og vekja sérstaka athygli á loftslagsréttlæti og réttlátum breytingum bæði í alþjóðasamhengi og í staðbundnu samhengi.


Comments


bottom of page