Nýafstaðin er herferð Loftslagsverkfallsins titluð #AÐGERÐIRSTRAX. Herferðin var til að vekja athygli á þörfinni á róttækari loftslagsaðgerðum af hálfu íslenskra stjórnvalda. Herferðin stóð yfir 12. febrúar til 5. mars 2021. Hér að neðan er farið yfir herferðina í heild.
Kröfurnar eru:
1. LÝSIÐ YFIR NEYÐARÁSTANDI Í LOFTSLAGSMÁLUM Stjórnvöld þurfa að viðurkenna alvarleika ástandsins því loftslagsbreytingar eru ein helsta núverandi ógn mannkyns. Það er þess vegna sem nú er talað um loftslagvá og hamfarahlýnun -því að við erum komin á stig neyðarástands. Með slíkri yfirlýsingu staðfesta yfirvöld alvarleika stöðunnar og vilja sinn til þess að bregðast við á viðeigandi hátt.
2. MARKMIÐ FEST Í LÖG Við krefjumst þess að markmið í loftslagsmálum verði fest í lögum sem skuldbindur stjórnvöld og fyrirtæki til þess að vinna að þeim með skipulögðum hætti.
3. HORFIÐ Á HEILDARLOSUN OG LEGGIÐ FRAM AÐGERÐIR ÚT FRÁ HENNI Við krefjumst þess að stjórnvöld setji markmið um a.m.k. 50% samdrátt í heildarlosun ásamt landnotkun fyrir árið 2030, svo við getum náð kolefnishlutleysi árið 2040.
Myndböndin tvö:
Myndbandið hér að neðan var gefið út 12. febrúar og segir frá kröfum Loftslagsverkfallsins.
Mynbandið fékk um 50 þúsund áhorf á Facebook, Instagram, YouTube og Umhverfissinnar.is.
Seinna myndbandið var gefið út 12. mars við lok herferðarinnar sem beint er að Íslendingum öllum.
Greinar frá aðgerðasinnum:
Meðan herferðinni stóð gáfu átta aðgerðarsinnar út sjö greinar sem allar birtust á Vísir.is.
„Þegar við hugsum um Ísland í samhengi við loftslagshamfarirnar hugsum við um okkur sem lítið og saklaust land sem losar varla neitt, og að þetta sé vandamál fyrir stóru löndin út í heiminum. Þetta er ekki satt, í raun og veru erum við, Íslendingar, að losa gríðarlega mikið á höfðatölu. Það eru margir flokkar af losun, þar að meðal landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (LULUCF) sem er mjög mikilvægur flokkur á Íslandi.“
Lesa grein Idu Karolinu
„Ísland hefur lýst því yfir að það ætli að vera leiðtogi í loftslagsmálum og skipar sér í hóp þeirra ríkja sem vilja stuðla að því að meðalhækkun hitastigs jarðar verði ekki umfram 1,5°C frá iðnbyltingu. Þetta eru vafalaust fögur fyrirheit en staðreyndin er sú að erfitt er að sjá hvernig aðgerðir íslenskra stjórnvalda endurspegla það leiðtogahlutverk sem við höfum tekið að okkur.“
„Fyrir nokkrum árum fékk ég tækifæri til þess að fara uppá Sólheimajökul í gönguferð. Landslagið á jöklinum var einstakt. Hvítir og bláir litir, djúpar og hrikalegar sprungur sem urðu skarpari í svartri öskunni sem barst um jökulinn og minnti á eldinn og hitann frá hinni kraftmiklu Kötlu sem hvílir undir ísnum. Ég varð dolfallin yfir þessu landslagi og langaði þar helst að vera. Ég fékk mér því vinnu sem leiðsögumaður og varði sumrum og fríum frá skóla gangandi um skriðjökla með ferðamönnum, fjölskyldu og vinum sem urðu jafn agndofa og ég yfir þessu vetrarríkidæmi.“
„Margir þeir sem ferðast um Ísland, bæði innlendir og erlendir, hafa hrifist af þeirri víðáttu og ósnortnu náttúru sem landið býður upp á. Stórar hraunbreiður, vaxnar mosa og nærri auðir melar eða svartir sandar eru einstök náttúrufyrirbæri og einkennandi landslag fyrir Ísland.“
„Ísland finnur nú þegar fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga. Súrnun sjávar, veðurfarsbreytingar, niðurbrot vistkerfa og hopun jökla hafa nú þegar áhrif, og munu þau aðeins aukast í framtíðinni. Þessar afleiðingar eru hins vegar ekki jafn lífshættulegar og þær alvarlegu afleiðingar sem íbúar Túvalú, Bangledesh, Rúanda og annarra fátækra landa upplifa í dag. Sem dæmi um alvarlegar afleiðingar má nefna vatnsskort, mannskæðar hitabylgjur og heimilisleysi vegna hækkandi yfirborðs sjávar.“
„Á undanförnum árum hafa margir sáttmálar og lög verið fullgilt hér á landi. Þar á meðal má nefna Parísarsáttmálann í loftslagsmálum og Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningarnir hafa það markmið að tryggja að hugað sé að mannréttindum annars vegar, og hins vegar að loftslagsmálum, í ljósi þess að áframhaldandi losun gróðurhúsalofttegunda hefur neikvæð áhrif á lífríkið og lífsgæði fólks.“
„Á meðan raddir unga fólksins óma frá Loftslagsverkfallinu og flestir virðast vera að átta sig á stærð vandans sem við stöndum frammi fyrir vegna hamfarahlýnunar er líkt og margir setji annan fótinn inn um dyragættina án þess að stíga skrefið til fulls.“
Verkföll á Austurvelli
Mótmælendur fóru að vana á Austurvöll andspænis Alþingi og mótmæltu aðgerðarleysi stjórnvalda í loftslagsmálum. Mótmælt var fjórum sinnum, alla föstudagana. Vel var gætt að sóttvörnum.
Lundinn er í hættu
Til að byrja með vöktu mótmælendur athygli á því að Lundinn er í útrýmingarhættu.
Upplýsingafundur um loftslagið
Þá var haldinn Upplýsingafundur um loftslagið. Þar fór Loftslagsþríeykið að yfir stöðu mála, viðbrögð okkar, og hvað þurfi að gera. Þríeykið skipa: Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir frá IPCC og Sigurður Loftur Thorlacius meðlimur Loftslagsráðs. Sævar Helgi Bragason stýrði fundinum. Upplýsingafundurinn var á Austurvelli á sama tíma og loftslagsverkfallið, en var einnig streymt á Facebook.
Hér að neðan er upptaka af streyminu frá fundinum.
Ræðufundur Loftslagsverkfallsins
Síðan var haldinn ræðufundur Loftslagsverkfallsins 26. febrúar. Þar tóku til máls Egill Ö. Hermannsson, Þorgerður M. Þorbjarnardóttir, Gísli Sigurgeirsson, Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, Emelía Thorgil, Brynjar Bragi Einarsson og Ida Karólína Harris. Loftslagsverkfallið syrgdi tveggja ára afmælið sitt á þessum föstudegi.
Upptöku frá fundinum má finna hér að neðan.
Tónleikar fyrir loftslagið
Að lokum voru haldnir litlir tónleikar fyrir loftslagið. Listamenn voru: Ida Karolina Harris, Kristin Sesselja, Jökull Jónsson, María Viktoría og Stelpurófan.
Upptaka af viðburðinum er hér að neðan.
Herferðin var hýst á vefsíðu Ungra umhverfissinna á Umhverfissinnar.is/adgerdirstrax.
Aðildarfélögin
Að lokum
Ég vil þakka öllum sem komu að skipulagningu herferðarinnar. Ekki aðeins aðildarfélögunum, Ungum umhverfissinnum, Stúdentaráði Háskóla Íslands og Landssamtökum Íslenskra stúdenta, heldur einnig grasrótarhreyfingunni sem mætir alla föstudaga til þess að mótmæla. Íslensk stjórnvöld verða að bregðast við kröfum loftslagsverkfallsins strax! Börn og ungmenni kvíða fyrir framtíðinni og eru hrædd um að plánetan sem eldri kynslóðir skilja eftir sig verði óbyggileg.
Loftslagsverkföllin verða áfram alla föstudaga á Austurvelli fyrir utan alþingi.
Höfundur er gjaldkeri Ungra umhverfissinna
Comments