top of page

Fréttatilkynning: niðurstöður COP28 vekja upp von og reiði


Von og reiði vegna lokaákvörðunar COP28

Niðurstöður COP28 vekja bæði upp von og reiði. Hægt er að líta á niðurstöðurnar með tveimur mismunandi linsum: linsu vonar og jákvæðni annarsvegar og linsu vonbrigða og reiði annarsvegar. Það er ýmislegt gott sem þjóðir heims náðu samkomulagi um og má klárlega tala um nokkur skref hafi verið stigin í rétta átt:


  • Fjármagn er farið að renna inn í nýjan loftslagshamfarasjóð

  • Kallað er eftir því að lönd færi sig frá notkun og framleiðslu jarðefnaeldsneytis í orkukerfum sem markar ,,upphafið að endalokum jarðefnaeldsneytis’’ eins og Simon Stiel, aðalritari UNFCCC sagði

  • Kallað eftir útfösun óskilvirkra ríkisstyrkja til jarðefnaeldsneytis

  • Samið um hnattrænt markmið um aðlögun að loftslagsbreytingum


En hins vegar er einnig margt slæmt við lokaákvörðunina sem vekur upp reiði:


  • Ekki nógu afdráttarlaus skilaboð um útrýmingu jarðefnaeldsneytis úr öllum geirum samfélaga okkar

  • Alls konar glufur í textanum og mikil áhersla á tæknilausnir s.s. kolefnisföngun og -förgun 

  • Ófullnægjandi loforð þróaðra ríkja um fjármögnun mótvægis- og aðlögunaraðgerða í þróunarríkjum


Ábyrgð Íslands og annarra Vesturlanda mikil

Gott er að nota báðar linsurnar til skiptis því niðurstöðurnar eru fjölbreyttar og ekki má draga úr því sem er jákvætt né líta framhjá því sem er neikvætt. En alveg óháð því hvaða linsu við lítum í gegn um er nauðsynlegt að öll lönd, og sérstaklega Ísland og önnur Vesturlönd, auki strax metnað og hraða innleiðingu loftslagsaðgerða sinna. Þetta kemur skýrt fram í textanum um Hnattrænu stöðutökuna (e. Global Stocktake). 


Í þessu samhengi eru ummæli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í frétt RÚV strax í kjölfar samþykktar lokaniðurstöðu COP28 algjörlega óviðeigandi og beinlínis hættuleg. Í fréttinni stendur að ráðherra telji „ekki þörf á því að uppfæra markmið íslenskra stjórnvalda vegna samkomulagsins“ en það er akkúrat það sem Hnattræna stöðutakan sem er jafnframt meginniðurstaða COP28 snýst um: að öll lönd auki metnað sinna landsframlaga vegna ófullnægjandi árangurs hingað til.


Það er beinlínis skrifað inn í Parísarsáttmálann að lönd eigi að auka metnað markmiða sinna á fimm ára fresti og að nýta eigi niðurstöðu Hnattrænu stöðutökunnar við uppfærslu þessara landsframlaga. Ísland er ekki undanskilið þessum reglum.


Til að setja í samhengi brýna nauðsyn þess að Ísland uppfæri markmið og aðgerðir sínar þá er skýrt tekið fram í lokasamþykkt Hnattrænu stöðutökunnar að draga þarf úr losun um a.m.k. 43% á heimsvísu fyrir árið 2030 m.v. losun árið 2019. Núverandi aðgerðir íslenskra stjórnvalda munu einungis skila um 2,1% samdrætti í heildarlosun fyrir árið 2030 m.v. 2019 eða um 20 sinnum minna en meðalsamdrátturinn á heimsvísu þarf að vera. Ef Ísland á ekki að herða markmið og aðgerðir sínar, hver á þá að gera það?


Einnig er mikilvægt að leiðrétta önnur ummæli Guðlaugs Þórs sem birtust í frétt á Vísi.is þann 10. desember s.l. þar sem því er haldið fram að það væri „engin lofts­lag­skrísa ef aðrir hefðu farið ís­lensku leiðina“.  Ísland er með eina mestu losun á hvern íbúa í heiminum og er því ljóst að ef öll lönd væru eins og Ísland værum við löngu búin að sprengja 1,5 gráðu markmið Parísarsáttmálans. Þessi málflutningur er hættulegur og sýnir fram á virðingarleysi gagnvart smáeyríkjunum sem fóru heim af COP28 með tárin í augunum vegna ófullnægjandi niðurstaðna.


Þurfum að setja okkur í spor smáeyríkjana

Til að gera okkur grein fyrir metnaði niðurstaðna COP28 þurfum að setja okkur í spor smáeyríkjana og fulltrúa þeirra sem snúa nú heim til ástvina sinna og geta ekki sagst hafa náð samkomulagi sem tryggir að eyjur þeirra muni ekki sökkva í sæ á næstu áratugum. Þetta er fólkið sem við þurfum að hafa efst í huga þegar við ræðum og tökum ákvarðanir um loftslagskrísuna því þessi barátta snýst um líf fólks og tilvist fjölda samfélaga um allan heim.


Þessi alþjóðlegi ákvarðanatökuvettvangur um loftslagsmál er ekk eins og einhver íþróttaleikur. Við megum ekki sætta okkur við jafntefli eða gleðjast yfir naumum varnarsigri. Við þurfum að fagna þeim skrefum sem tekin voru í rétta átt en jafnframt benda á það sem hefði þurft að gera mun betur og bregðast svo við með fullnægjandi hætti. Alvarleiki málsins kjarnast í ummælum John Silk, formanni samninganednar Marshall eyja á COP28, um það að orðalag um útfösun jarðefnaeldsneytis hafi horfið úr samningatextanum:


„The Republic of the Marshall Islands did not come here to sign our death warrant. We came here to fight for 1.5 [C] and for the only way to achieve that: a fossil fuel phase-out. What we have seen today is unacceptable. We will not go silently to our watery graves. We will not accept an outcome that will lead to devastation for our country, and for millions if not billions of the most vulnerable people and communities“


Hvað þarf að gerast í kjölfar COP28?

Það sem þarf að gerast núna í kjölfar COP28 er að:


  • Ísland uppfæri landsframlag sitt sem allra fyrst og setji fram í því metnaðarfyllra markmið en áður

  • Íslensk stjórnvöld og fyrirtæki grípi til mun róttækari aðgerða til að alvöru samdráttur í losun fari að nást hér á landi

  • Hefja strax milliríkjasamstarf með þeim þjóðum sem vildu framsæknari niðurstöður á COP28 og sjá til þess að þau gangi öll lengra en lægsti samnefnarinn og að niðurstöður COP29 verði metnaðarfyllri


Er einhver von?

Já það er von og við þurfum að breyta henni í árangur. Það sem gerir okkur í Ungum umhverfissinnum kleift að halda í vonina og halda baráttunni áfram er að:


  • COP fundirnir eru einungis 2 vikur af þeim 52 vikum sem eru í hverju ári og þó þessi vettvangur sé gríðarlega mikilvægur er svo margt fleira sem við getum og þurfum að gera utan hans

  • Mikill meirihluti landa heims vildu sjá róttækari ákvörðun sem þýðir vonandi að þau munu einfaldlega ganga lengra en þessi ófullnægjandi niðurstaða sem náðist sátt um á COP28

  • Samstaðan meðal ungs fólks um allan heim er einungis að aukast - baráttuhugur okkar hefur aldrei verið jafn sterkur og munum við halda ótrauð áfram að þrýsta á breytingar sem tryggja lífvænlega framtíð fyrir okkur og framtíðarkynslóðir



___

Frekari upplýsingar um niðurstöður COP28 veita:


Finnur Ricart Andrason, forseti Ungra umhverfissinna.

s. 6261407


Cody Alexander Skahan, climate rep. of Ungir umhverfissinnar

s. 6116404


bottom of page