
Landsfundur Ungra umhverfissinna: Náttúruvernd
Landsfundir Ungra umhverfissinna hófust á fundi um náttúruvernd þann 29. og 30. október 2021. Fundurinn var haldinn á Icelandair hotel Natura í Reykjavík.
Um 50 manns mættu á fundinn til að hlýða á fyrirlestra frá fræðafólki og sérfræðingum ásamt því að taka þátt í umræðum um hin ýmsu málefni innan náttúruverndar. Tilgangur fundarins var að stuðla að umræðum milli ungs fólks, fræðafólks og ráðafólks landsins ásamt því að heyra hverjar áherslur ungs fólks eru í náttúruverndarmálum. Afrakstur umræðanna verður að lokum nýttur til stefnumótunar félagsins í náttúruvernd en stefnan verður samþykkt á aðalfundi félagsins.
Fundinum var skipt í fjögur þemu; dýravernd, landnýting, friðlýsingar og virkjanir og sjór og sjávarútvegur. Fræðafólk og sérfræðingar héldu erindi um mismunandi málefni innan hvers þema og svöruðu spurningum viðstaddra. Fundurinn var opnaður með ávarpi frá umhverfisráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni. Undir lok hvers þema voru umræður í litlum hópum þar sem áhersluatriði voru skrifuð niður á blað. Þessi áhersluatriði hafa verið tekin saman hér að neðan í samantekt umræða og munu nýtast til stefnumótunar félagsins.
Hér að neðan má sjá upptökur af fyrirlestrum úr hverju þema fyrir sig í myndbandaröð.