top of page

Umsögn um stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa

Updated: Aug 30, 2023Umsögn um 889. mál frá nefnda- og greiningarsviði Alþingis, tillaga til þingsályktunar um gerð stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa


Ungir umhverfissinnar (UU) telja brýna þörf á stefnu og lagabreytingum um móttöku skemmtiferðaskipa og fagna því þessari þingsályktunartillögu. UU binda vonir við að stefnumótunin sem lögð er til myndi stuðla að minni loftmengun, minni losun gróðurhúsalofttegunda og minna álagi vegna ferðamanna á náttúru landsins.


UU telja að skýr viðmið og takmarkanir þurfi að setja um losun gróðurhúsalofttegunda sem og aðra loftmengun frá skemmtiferðaskipum. Sömuleiðis er þörf fyrir takmarkanir á losun úrgangs frá slíkum skipum og þyrftu viðeigandi viðurlög að fylgja slíkum takmörkunum. Einnig er mikilvægt að ábyrðasvið séu gerð skýr og að lagaheimildir til framfylgni slíkra reglna verði gerðar skýrar. Þessu þarf að fylgja nægilegt fjármagn.


Koma skemmtiferðaskipa hefur í för með sér áhættu á að framandi tegundir taki sér bólfestu við strendur landsins. Takmörk á fjölda skipa sem koma í hafnir og aðrar ráðstafanir geta minnkað þessa áhættu, en einnig er þörf á frekari ráðstöfunum til að draga enn frekar úr þessari hættu.


UU telja þörf fyrir skýran lagaramma sem gerir stjórnvöldum kleift að takmarka og stýra komum skemmtiferðaskipa hvort sem er vegna koltvísýringslosunar, mengunar af öllu tagi, ágangs á náttúru, móttökugetu hafna, fyrri brota á settum reglum eða annara viðeigandi ástæðna.


Taka ætti til greina mögulegan ávinning og skaðsemi komu ferðamanna með skemmtiferðaskipum í stærra samhengi og samanburði við aðra ferðamáta m.t.t. útblásturs gróðurhúsalofttegunda, efnahagslegum ávinningi, áhrif á náttúru, aðra mengun, o.s.fr. með það að markmiði að ýta undir sjálfbæra ferðamáta sem eru Íslandi til góðs til langs tíma litið.


Við stefnumótun telja UU að taka beri sérstaklega til greina sjónarmið í nærsamfélögum við hafnir sem skemmtiferðaskip leggja að landi og þeirra viðhorf til hvað séu viðunandi eða óviðunandi áhrif ferðamennsku. Sömuleiðis ætti að taka mið af þeim vísindarannsóknum sem þegar hafa kannað áhrif skemmtiferðaskipa hér á landi, bæði á nærsamfélög og umhverfið.


Gæta þarf samræmis í gjaldtöku af skemmtiferðaskipum bæði innanlands og á norðurslóðum almennt til að styrkja stöðu sveitarfélaga gagnvart fyrirtækjum sem reka skemmtiferðaskip. Í samu mund ættu umhverfisviðmið fyrir skemmtiferðaskip að taka mið af norrænu samráði og samvinnu.---

Fyrir hönd Ungra umhverfissinna,

Cody Skahan, loftslagsfulltrúi

Snorri Hallgrímsson, ritari

Sæunn Júlía Sigurjónsdóttir, náttúruverndarfulltrúi

26. maí 2023Commentaires


bottom of page