Sólin

Einkunnagjöf Ungra umhverfissinna á loftslags- og umhverfisstefnum stjórnmálaflokka Íslands í aðdraganda Alþingiskosninga haustið 2021

Hér má hlaða niður excel skjali þar sem hægt er að nálgast kvarðann í heild sinni.

Starfsfólk Sólarinnar

432408.min-800x600.jpg

Það er nauðsynlegt að loftslags- og umhverfismál verði í brennidepli í komandi kosningum þar sem framtíð okkar allra veltur á heilbrigðum hringrásarkerfum Jarðarinnar eins og loftslagi og lífríki. Til að tryggja aðhald og upplýstari almenning hafa Ungir umhverfissinnar hannað kvarða sem verður notaður til að meta umhverfis- og loftslagsstefnur allra flokka, en kvarðinn, og einkunnagjöf eftir honum, mun sýna svart á hvítu styrkleika og veikleika í umhverfis- og loftslagsstefnum flokkanna. Einnig gegnir kvarðinn því hlutverki að vera leiðarvísir fyrir flokkana að því hvernig þeir geti aðlagað stefnur sínar að sjónarmiðum og kröfum ungs fólks hvað varðar umhverfismál. Kvarðinn er alls 100 stig og er skipt í þrjá hluta: loftslagsmál (40 stig), náttúruvernd (30 stig) og hringrásarsamfélag (30 stig).

 

Til að takast á við hönnun kvarðans réði UU þverfaglegt teymi ungra umhverfissinna til verksins, þær Aðalbjörgu Egilsdóttur, Esther Jónsdóttur og Sigríði Guðjónsdóttur. Þær útbjuggu kvarðann í nánu samstarfi við stjórn Ungra umhverfissinna og meðlimi, ásamt því að fá álit og ráðleggingar óháðra sérfræðinga. Gætt var að því að hver sá aðili sem tók þátt í vinnunni væri ekki með nein tengsl inn í stjórnmálaflokkana. 

186979375_1400576450295307_7163110239659

Ásamt því að birta kvarðann hér á síðunni hefur hann verið sendur á alla stjórnmálaflokka, en UU mun funda með þeim yfir sumarið til að koma sjónarmiðum ungs fólks á umhverfismálin enn frekar til skila.

 

Þegar allar stefnur flokka hafa verið uppfærðar verður þeim gefin einkunn og hún gerð opinber við athöfn í Norræna húsinu þann 3ja september, takið daginn frá!

Fyllsta hlutleysis verður gætt við einkunnagjöfina. Í fyrsta lagi eru þeir aðilar sem vinna að gerð kvarðans og gefa einkunn eftir honum ekki með tengsl innan stjórnmálaflokka og nöfn flokka afmáð áður en stefna þeirra er metin. Einnig er gætt að samræmi í einkunnagjöf með því að láta ólíkt matsfólk fara yfir og reikna fylgni milli svara þeirra, þ.e. áreiðanleika matsfólks.

187170523_969049253847968_16502449363280

Stjórn Ungra umhverfissinna 2021-22. Frá vinstri: Tinna (formaður), Sæunn Júlía (náttúruverndarfulltúi), Sigrún Perla (gjaldkeri), Unnur (fræðslu- og kynningarstjóri), Rafn (ritari), Egill (varaformaður). Á myndina vantar Finn (loftslagsfulltrúa) og Ölmu (hringrásarhagkerfisfulltrúa).

Sjá hlekk efst á síðu til að hlaða niður kvarðanum.