top of page

UU fagna stöðvun hvalveiða




Ungir umhverfissinnar fagna ákvörðun ráðherra um stöðvun hvalveiða til 31. ágúst. Það er í mörg horn að líta þegar kemur að slíkri ákvarðanatöku en við fögnum því heilshugar að stjórnvöld séu djörf og taki ákvarðanir í þágu náttúrunnar því þær ákvarðanir munu ávallt skila okkur mestum ávinningi til framtíðar.


Líkt og skýrsla Matvælastofnunar og niðurstaða Fagráðs um velferð dýra sýndu þá tók aflífun hvalanna of langan tíma og samræmast veiðiaðferðir ekki lögum um velferð dýra. Við erum hjartanlega sammála ráðherra um að skilyrði laga séu ófrávíkjanleg og slík starfsemi eigi sér ekki framtíð. Ákvörðunin er ekki síst mikilvæg í ljósi gífurlegs taps á líffræðilegum fjölbreytileika og hraðra loftslagsbreytinga sem ógna okkur og tugþúsunda annarra tegunda svo sem tegunda sem reiða sig á næringarhringrásina sem hvalir skapa milli laga í hafinu. Þegar slík áhætta blasir við okkur er ekki síst þörf á að vernda náttúruna og réttindi komandi kynslóða til heilnæms og hreins umhverfis.


Sameiginlegt átak margra samtaka og einstaklinga hefur sannað sig og er mikilvægt að við stöldrum við og nýtum sigurinn sem innblástur til að halda áfram baráttunni fyrir náttúruna og framtíðarkynslóðir. Tekið skal fram að þó að þessi sigur séu frábærar fréttir þá eru þetta ekki varanleg endalok hvalveiða og því er mikilvægt að umhverfissjónarmið og sjónarmið um velferð dýra fái áfram að liggja til grundvallar slíkra ákvarðana.


Við fögnum því að ráðherra hafi tekið vel ígrundaða ákvörðun sem byggir á bestu fáanlegu upplýsingunum og að náttúran fái að njóta vafans!


Comentarios


bottom of page