Umsögn þessi var send inn til Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins þann 23. janúar 2024.
---
Ungir umhverfissinnar hafa kynnt sér frumvarp til laga um vindorku og vilja koma eftirfarandi atriðum á framfæri.
Skilgreining ,,raskaðra’’ svæða
Við fögnum því að ákveðin svæði hafa verið skilgreind þar sem nýting vindorku verður ekki leyfð. Mikilvægt er að hafa skýr lög sem segja til um hvar má virkja og hvar ekki til að standa vörð um náttúru landsins og menningarminjar.
Orðalag um að vindorkuver skulu aðeins byggð á röskuðum svæðum er ekki nógu skýrt. Hér þarf að gæta að því að hugtakið ,,raskað svæði’’ sé vel skilgreint í lögunum. Í núverandi drögum er orðalagið um ,,óraskaða náttúru’’ villandi þar sem til eru svæði sem talin eru til víðerna þrátt fyrir að þar séu að finna bein eða óbein áhrif eða ummerki um gjörðir fólks.
Sem dæmi má nefna að erfitt er að finna svæði á Reykjanesskaga sem eru með öllu óröskuð en áhrif vindorkuvera myndu samt sem áður vera veruleg, bæði sjónræn áhrif sem og áhrif á vistkerfi. Skýra skilgreiningu á því hvað teljist ,,nógu raskað’’ til að reisa megi vindorkuver vantar í þessi lög. Slík skilgreining er nauðsynleg til að koma í veg fyrir frekari spjöll á náttúru landsins.
Fyrir innblástur við skilgreiningu slíkra hugtaka má nýta rannsókn Wildland Research Institute sem unnin var í samstarfi við SUNN, Náttúruverndarsamtök Íslands, Skrauta og Unga umhverfissinna en þar eru víðerni skilgreind á skala eftir því hve snortin eða ósnortin þau eru.
Sjónræn áhrif ekki nefnd
Ekki er minnst á sjónræn eða nálægðaráhrif af vindorkuverum í drögum frumvarpsins. Viljum við að klausu verði bætt við í þessi lög sem segir til um að skylt sé að lágmarka sjónræn áhrif af vindorkuverum og uppbyggingu þeirra.
Forsendur frekari raforkuframleiðslu á Íslandi
Við teljum það nauðsynlegt að útbúa skýran lagaramma utan um mögulega uppbyggingu vindorkuvera hér á landi en bendum jafnframt á að gríðarlega mikilvægt sé að sá lagarammi verði unninn í samræmi við víðara samhengi. Það að flýtimeðferð sé byggð inn í lögin er mjög varhugarvert þar sem mikil óvissa ríkir um orkuþörf og forsendur fyrir því í hvað aukin framleiðsla raforku eigi að fara í.
Við getum ekki stutt það að vindorka fái flýtimeðferð í nafni orkuskipta og markmiða Íslands um kolefnishlutleysi þrátt fyrir að orkukostir þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði til að mega fara þessa leið. Í fyrsta lagi eru þessi skilyrði einfaldlega hvorki nógu skýr né nógu traust til að vernda íslenska náttúru.
Í öðru lagi skortir algjörlega að stjórnvöld setji fram skýra stefnu í loftslgasmálum og er stefna stjórnvalda í orkumálum einnig óskýr. Það er beinlínis hættulegt að verið sé að vaða áfram með lagasetningu um flýtimeðferðir og háværa orðræðu um orkuskort þegar engin stefna er til staðar í málaflokknum. Skiptar skoðanir ríkja þegar kemur að meintum orkuskorti og þörf er á að koma á jafnvægi í þeirri umræðu og leyfa henni að gerjast. Mögulega er ekki þörf á að stórauka framleiðslu á endurnýjanlegri orku ef þeirri orku sem til er verður forgangsraðað til almennrar og nauðsynlegrar notkunar og skaðleg stóriðja minnkuð, sjá t.d. orkuskiptahermi Landverndar. Við þurfum ekki að fórna náttúrunni enn meira í nafni orkuskipta. Staðan er einfaldlega sú að þeirri gríðarmiklu raforku sem við framleiðum nú þegar er ekki forgangsraðað rétt; hagsmunir almennings og náttúrunnar eru ekki í forgangi.
Við höfum lengi haldið því á lofti að orkuskipti megi ekki trompa náttúruvernd og vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Þetta gildir að sjálfsögðu um nýtingu vindorku jafnt sem vatnsfalls og jarðvarma.
Teljum við að vindorkuáætlanir eigi að ganga í gegnum ítarlegt umhverfismat áður en ráðist er í framkvæmdir, líkt og aðrir orkukostir. Ekki er gerð krafa um slíkt í núverandi drögum laganna og er nauðsynlegt að því sé kippt í lag.
---
Fyrir hönd Ungra umhverfissinna,
Sæunn Júlía Sigurjónsdóttir, náttúruverndarfulltrúi UU
Finnur Ricart Andrason, forseti UU
Comments