top of page

Umsögn UU við frumvarp um bann við hvalveiðum

Umsögn þessi var send inn til Atvinnuveganefndar alþingis þann 23. október 2023.

---


Ungir umhverfissinnar styðja heilshugar bann við hvalveiðum á Íslandi og færa eftirfarandi rök fyrir þeim stuðningi.Ekki hægt að tryggja velferð hvala í samræmi við lög


Þann 8. maí gaf Matvælastofnun (MAST) út skýrslu um veiðar Hvals hf. á langreyðum árið 2022 ásamt hrollvekjandi myndbandsupptökum af veiðunum. Skýrslan og upptökunar sýna skýrt að hvalveiðar brjóta í bág við Lög um velferð dýra, alþjóðlegum samþykktum um hvalveiðar og jafnvel alþjóðlegum mannréttindasáttmálum.


Samkvæmt skýrslunni tók í 41% tilvika meira en 11 mínútur fyrir dýrin að deyja. Sumir hvalanna voru skotnir með allt að fjórum sprengiskutlum. Einn hvalur þjáðist í heila klukkustund áður en hann dó, annar í tvær klukkustundir og enn öðrum var veitt eftirför með skutul í bakinu í fimm klukkustundir áður en hvalveiðimennirnir gáfust upp. Þetta er í algjöru ósamræmi við Lög um velferð dýra sem segir að „ávallt skal staðið að veiðum þannig að það valdi dýrunum sem minnstum sársauka og aflífun þeirra taki sem skemmstan tíma.“


Tveir þriðju af drepnu hvölunum voru kvenkyns og að minnsta kosti 11 voru óléttir. Ein drepnu kúnna var mjólkandi sem leiðir líkum að kálfur hennar hafi verið skilinn eftir móðurlaus til að deyja. Hrönn Ólína Jörundsdóttir framkvæmdastjóri MAST segir þessar niðurstöður „óásættanlegar”.


Hvalir nauðsynlegir í heilbrigðum sjávarvistkerfum


Langreyðar eru næst stærsta dýrategund jarðar. Þeir eru taldir í útrýmingarhættu skv. Bandarískum lögum og eru skilgreint sem viðkvæm tegund á válista IUCN. Langreyðar spila mikilvægt hlutverk í sjávarvistkerfum heims. Úrgangur þeirra er uppspretta mikilvægra næringarefna fyrir ör- og smáverur sem stunda ljóstillífun, t.d. plöntusvif sem framleiðir helming alls súrefnis í andrúmsloftinu. Þegar hvalir deyja falla hræ þeirra til botns þar sem þau næra einnig aðra hluta vistkerfisins og stuðla að kolefnisbindingu. Áframhaldandi tilvist þeirra skiptir því sköpum til að viðhalda heilbrigði vistkerfa í heimshöfunum.


Fullyrt hefur verið í fjölmiðlum að hvalveiðar takmarki loftslagsbreytingar þar sem öndun hvala losar mikið magn koltvísýrings. Eru þessar fullyrðingar einföldun á flóknu virki vistkerfa. Þó það sé vissulega rétt að hvalir séu stór dýr sem anda frá sér miklu magni koltvísýrings líkt og hvert annað lifandi dýr, maðurinn meðtalinn, þá er þetta aðeins einn hluti stóru myndarinnar. Hvalir eru hluti af afar merkilegu vistkerfi. Stórir hvalir, líkt og langreyðar, borða að mestu ljósátu og annað dýrasvif og hafa þeir skíði sem þeir nota til þess að sía þessi örsmáu dýr frá sjónum. Úrgangur þeirra flýtur til yfirborðs sjávar þar sem hann sér öðru svifi fyrir mikilvægum næringarefnum líkt og köfnunarefni. Þetta svif er að mestu smáþörungar sem notar koltvísýring til að framleiða sykrur og losa í leið súrefni.

Svifþörungar eru afar mikilvægir í súrefnismyndun en þeir sjá fyrir meiri framleiðslu súrefnis en allir regnskógar heims samanlagðir. Við enda lífsferilsins sökkva hvalshræ niður á botn sjávar þar sem kolefni sem geymt er í líkama þeirra er nýtt af botnsjávarlífverum eða tryggilega fest í seti. Þetta skapar nær fullkomna hringrás næringarefna og kolefnis sem þróast hefur í aldaraðir, hringrás sem við rjúfum með hvalveiðum.Bann við hvalveiðum það eina rétta í stöðunni


Við teljum fulla ástæðu til að koma í veg fyrir að hvalveiðar verði stundaðar aftur á Íslandi. Veiðitímabilið 2023 sýndi fram á að bættu aðferðirnar gætu ekki tryggt tafarlausan dauða þar sem tvo eða fleiri skutla þurfti að nota til að drepa þó nokkurn fjölda hvala. Hvlaur notar nú þegar sprengiskutla og rafvæðing skutla eykur líklega hættuna fyrir hvalveiðimenn og annað sjávarlíf á sama tíma og það tryggir varla að hvalirnir muni drepast. Grein frá árinu 2023 sem birtist í fræðiritinu “Animal Welfare” og byggir á upptökum frá japönskum hvalveiðiskipum þar sem rafskutlar voru notaðir greindi frá því að „aðeins lítill hluti straumsins myndi fara í gegnum heilann og er sleglatif ólíklegt. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að straumurinn sem er notaður er líklega fimmtíu til hundrað sinnum of lítill til að valda hjartaflökti eða truflun á heilastarfsemi. Mannúðlegum dauða verður ekki náð með ónákvæmum skotum á skutlum og ófullnægjandi notkun á raflosti.”


Nú er runnin up ögurstund í mannkynssögunni þar sem við stöndum frammi fyrir fordæmalausu tapi á líffræðilegum fjölbreytileika og hraðar breytingar á loftslagi ógna þúsundum ef ekki milljónum tegunda, þ.á.m. okkur sjálfum. Nú er tími til að ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir og allar varúðarráðstafanir sem völ er á til að koma í veg fyrir skaða umfram þann sem nú þegar er skeður, þ.m.t. að banna hvalveiðar í eitt skipti fyrir öll, sérstaklega í ljósi þess neyðarástands sem ríkir vegna loftslagsbreytinga og hröðu tapi á líffræðilegri fjölbreytni. Hættan á útdauða hvala ógnar líka þeim fjölmörgu tegundum sem reiða sig á næringangarhringrásina sem þeir skapa milli laga í hafinu.


Ef hvalveiðar verða ekki bannaðar erum við að senda þau skilaboð til framtíðarkynslóða og samfélaga á víglínum loftslagsbreytinga að aðgerðir okkar eru ekki byggðar á vísindalegum rökum né samkennd. Það sem meira er að í könnun sem gerð var fyrr á þessu ári kom fram að rúmlega helmingur íslensku þjóðarinnar sé ekki hlynntur áframhaldandi hvalveiðum. Það að banna hvalveiðar fyrir fullt og allt er okkar tækifæri til að sýna heiminum að Ísland er staðráðið í að bregðast fullnægilega við loftslagsbreytingum og hnignun líffræðilegs fjölbreytileika. Hvort sem okkar verður minnst sem þjóð sem verndaði hvali eða þjóð sem drap þann síðasta ákvarðast af gjörðum okkar í dag.


Brýnt er að vernda tilverurétt náttúrunnar sem og réttindi ungs fólks og komandi kynslóða til heilnæms og hreins umhverfis.


---

Fyrir hönd Ungra umhverfissinna,

Cody Alexander Skahan, loftslagsfulltrúi UU

Finnur Ricart Andrason, forseti UU


Comments


bottom of page