Umsögn þessi var send inn til Matvælaráðuneytisins 10. júlí í kjölfar fundar sem haldinn var með þeim 26. júní til að ræða stöðu stefnumótunar stjórnvalda varðandi lagareldi á Íslandi.
---
Við í Ungum umhverfissinnum (UU) kunnum mikið að meta að hafa fengið annað tækifæri til að sækja fundinn þar sem við höfðum ekki tök á að mæta á upprunalega fundinn. Þetta sýnir okkur að stjórnvöldum er annt um aðkomu okkar og annarra hagaðila að þessu máli.
Við fögnum því að stefnumótunarferli um lagareldi sé hafið. Það kom skýrt fram að markmið matvælaráðuneytis í þessu verkefni eru að vinda ofan af mistökum sem gerð voru þegar sjókvíaeldi hófst á sínum tíma og koma í veg fyrir að sömu mistök verði gerð í öðru lagareldi sem ekki er komið jafn langt á veg.
Mikil áhersla er lögð á rannsóknir og fjármagn til þeirra aukið. Þetta er mikilvægt til að svara ýmsum spurningum um áhrif sjókvíaeldis á náttúru og samfélag.
Mikil áhersla er lögð á rannsóknir en lítið er um raunverulegar aðgerðir sem fyrirbyggja og minnka skaðlega starfsemi. Rannsóknir eru góð leið til að komast að því hvaða vandamál verið er að fást við og hvaða áhrif gjörðir hafa á lífríki og samfélag. Það er hins vegar margt sem nú þegar er ljóst að sé skaðlegt og því viljum við sjá aðgerðir sem fyrst til að takmarka skaðlega starfsemi. Það er ekki hægt að bíða með aðgerðir til að rannsaka hlutina enn betur og hætta því að hlutirnir versni.
Ekkert er talað um það hvort ætlunin sé að setja þak á iðnaðinn eða fjölda sjókvía. Ljóst er að þessi iðnaður getur ekki vaxið endalaust. Með aukinni framleiðslu aukast líkur á stroki og skaðleg áhrif á lífríki verða meiri. Það er ljóst að markmiðið er að koma í veg fyrir frekari skaða á lífríki en það virðist ekki vera mikill vilji til að setja niður fótinn þegar áhættan er orðin of mikil.
Lítið var talað um áhrif lagareldis á samfélög og hvernig gæta skal sanngirni og jafnrétti þegar kemur að breytingum á starfsumhverfi og leyfum.
UU fagna því að vinna sé loks hafin við mótun stefnu í lagareldi og að vilji sé til að læra af fyrri mistökum og reynslu annarra þjóða. Við fögnum því að auka eigi við rannsóknir á áhrifum lagareldis á lífríki. Við höfum þó áhyggjur af því að of mikil áhersla á rannsóknir verði til þess að nauðsynlegar aðgerðir verði ekki teknar nógu snemma. Viljum við benda á varúðarreglu náttúruverndarlaga (9. gr. laga nr. 60/2013) í þessu samhengi en hún segir til um að gera megi ráðstafanir þegar lítil vísindaleg þekking er til staðar til þess að koma í veg fyrir skaðleg áhrif af athöfnum mannsins á vistkerfi eða auðlindir.
Áhættan af sjókvíaeldi er nú þegar talsverð. Sýnt hefur verið fram á að laxeldi í Noregi hefur ýmis neikvæð umhverfisáhrif. Má þar nefna erfðablöndun, laxalús og mengun frá úrgangi (heimild). Teljum við í UU að réttast sé að forðast frekari neikvæð áhrif sjókvíaeldis á umhverfið. Viljum við því að tekin verði sú ákvörðun að færa iðnaðinn að mestu úr sjókvíum í landeldi sem hefur umtalsvert minni skaðleg áhrif á umhverfið (heimild).
---
Fyrir hönd Ungra umhverfissinna
Sæunn Júlía Sigurjónsdóttir,
Náttúruverndarfulltrúi UU
10. júlí 2023
コメント