top of page

Umsögn UU um græna hvata fyrir bændur

Umsögn þessi var send inn til Atvinnuveganefndar alþingis þann 12. október 2023.Umsögn við 43. máli 154. löggjafarþings: Tillaga til þingsályktunar um græna hvata fyrir bændur.


Ungir umhverfissinnar (UU) hafa kynnt sér þingsályktunartillögu um græna hvata fyrir bændur og styðjum hana heilshugar. UU telja brýna þörf á slíkum hvötum og fögnum við því þessari tillögu en viljum koma eftirfarandi athugasemdum áleiðis sem við teljum mikilvægt að taka tillit til ef hámarka á jákvæðan ávinning fyrir umhverfi og samfélag með þessum hvötum.


Loftslagsbreytingar og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni eru stærstu áskoranir samtímans. Mikilvægt er að dregið sé úr losun gróðurhúsalofttegunda til að Ísland standist alþjóðlegar skuldbindingar og skapi skilyrði til heilbrigðs samfélags bæði hérlendis og annars staðar. Landbúnaður hefur oft verið undanskilinn umræðu um losun gróðurhúsalofttegunda eða fengið litla athygli í samanburði við aðra málaflokka. Staðreyndin er þó sú að landbúnaður, og þá sérstaklega framleiðsla á dýraafurðum, hefur með sér í för verulega losun gróðurhúsalofttegunda og í mörgum tilfellum verulegt rask á vistkerfum.


Grænir hvatar auka tækifæra bænda til að hafa jákvæð áhrif í umhverfismálum á margan hátt, t.d. með því að auka frelsi þeirra og bæta kjör sem veitir þeim getu til að stunda sjálfbærari landbúnað, endurheimt vistkerfa og landvörslu. Þegar kemur að endurheimt votlendis viljum við benda sérstaklega á rannsóknarskýrslu sem unnin var fyrir Landgræðsluna í fyrra um áskoranir og tækifæri í endurheimt votlendis á Íslandi


Mikilvægt er að við innleiðingu grænna hvata séu bændur hafðir með í ráðum þar sem þeir þekkja landið hvað best og búa yfir mikilli reynslu og þekkingu sem gæti nýst vel við útfærslu hvatanna. Það er til gríðarlega mikils að vinna fyrir bændur og samfélagið í heild með umfangsmiklum grænum hvötum og hægt að tryggja skilvirkni þeirra og sem mest áhrif með því að nýta þekkingu bænda og fræðasamfélagsins. Hafa þarf réttlát umskipti í fyrirrúmi við innleiðingu grænna hvata til að gæta þess að breytingarnar bitni ekki illa á bændum; að þeim sé veittur stuðningur frá hinu opinbera til að færa sig úr framleiðslu dýraafurða yfir í framleiðslu jurtafæðis og endurheimtar vistkerfa.


Þegar kemur að útfærslu þessara hvata leggja UU til að búvörusamningum verði breytt í takt við þá og að fjárframlög til landbúnaðar endurspegli betur markmið stjórnvalda í umhverfismálum. Í núverandi mynd er um 85% allra styrkja ríkisins til landbúnaðarins varið í að framleiða mjólk og rautt kjöt en einungis um 4% veitt í grænmetisframleiðslu. Þetta er grafalvarleg staða og væri það þjóðhagslega hagkvæmt að snúa þessum hlutföllum við eða a.m.k. jafna þau. Það að íslensk stjórnvöld séu að niðurgreiða ósjálfbæra framleiðslu á dýraafurðum með svo afgerandi hætti er í beinu ósamræmi við markmið okkar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegundir og verndun og endurheimt vistkerfa.


Gott gæti verið að líta til þess styrkjakerfis sem ESB notast við en þar eru landbúnaðarstyrkir ekki framleiðslutengdir og er bændum því veitt aukið frelsi til að framleiða það sem þeim finnst best að framleiða. Þetta fyrirkomulag hvetur bændur einnig til að nýta landið sitt á eins skilvirkan hátt og hægt er þar sem magn matvæla per hektara er hámarkað. Grænir landbúnaðarstyrkir ESB eru einnig fyrirmynd sem mætti líta til við útfærslu á slíkum grænum hvötum á Íslandi.


UU telja góða hugmynd að skipa starfshóp um bætt tækifæri bænda til að græða viðkvæm og illa farin vistkerfi. Þó viljum við benda á að raddir ungs fólks endurspeglast ekki í þeirri upptalningu hagaðila sem lagt er til að skipi þennan starfshóp. Teljum við æskilegt að raddir ungs fólks og framtíðarkynslóða fái að heyrast í slíkum starfshópi og leggjum við til að Ungir umhverfissinna og Samtök ungra bænda fái sæti í honum. Eins og með alla starfshópa þarf að huga að því að vinna á skilvirkan máta og að hann skili af sér skýrum og vel nýtanlegum niðurstöðum.


--

Fyrir hönd Ungra umhverfissinna,

Evlalía Kolbrún Ágústsdóttir, varaforseti UU

Finnur Ricart Andrason, forseti UU

Comments


bottom of page