top of page

Umsögn Ungra umhverfissinna um tilfærslu á losunarheimildum

Ungir umhverfissinnar leggjast einhliða gegn áformum meirihluta fjárlaganefndar, sem lögð eru fram í nefndaráliti þeirra um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023, um að samþykkja svokallað ‘sveigjanleikaákvæði’ er varðar viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda (e. Emission Trading System, ETS). Í ákvæðinu felst að Ísland hafi heimild til að nota takmarkaðan hluta ETS-heimildanna til að standa skil á skuldbindingum um samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands (e. Effort Sharing Regulation, ESR). Líkt og láðist að taka fram í nefndarálitinu er um að ræða umtalsverðan hluta af ESR skuldbindingum Íslands, eða 4%, sem er mesti sveigjanleiki sem boðið er upp á (sjá hér undir: ‘Flexibility to access allowances from the EU ETS’).


Með því að leyfa slíkan sveigjanleika skapast hætta á að dregið verði úr metnaði til að ná tilætluðum árangri í samdrætti í losun á beinni ábyrgð Íslands (ESR losun), en núþegar eru blikur á lofti er varðar getu okkar að standa við sett markmið, líkt og Ungir umhverfissinnar, Loftslagsráð, og fleiri aðilar hafa ítrekað bent á. Nýleg stöðuskýrsla aðgerðaáætlunar um loftslagsmál 2022 er enn eitt dæmið um hversu skýrt það er og hefur verið að núverandi aðgerðir eru ófullnægjandi.


Við undirstrikum andstöðu okkar við þessi áform og leggjum þess í stað til að ríkisstjórnin grípi einfaldlega til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til að standa við markmið (úthlutuð sem og sjálfstæð) um samdrátt sem fellur undir beina ábyrgð Íslands (ESR). Í stað þess að bæta við sveigjanleika ætti áherslan að vera á að lögfesta sjálfstætt sett markmið um 55% samdrátt í ESR losun fyrir 2030 (m.v. 2005 sem upphafsár) og að sjá til þess að uppfærsla á aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum skili þeim samdrætti.


Til viðbótar við efnislegar athugasemdir okkar viljum við benda á að meðferð þessarar tillögu getur ekki talist ákjósanleg. Örstuttur tími milli útgáfu álitsins og fyrirhugaðrar afgreiðslu málsins gefur almenningi sem og öðrum hagaðilum skamman tíma til að kynna sér um hvað ræðir og senda inn athugasemdir fyrir afgreiðslu þessa mikilvæga máls.


Að lokum viljum við undirstrika að ef Ísland ætlar sér að vera leiðandi í loftslagsmálum er okkur ekki til framdráttar að nýta glufur og undantekningarákvæði til að standast okkar skuldbindingar. Nú er tíminn til að sækja fram og sýna fram á metnað okkar í verki!



Fyrir hönd Ungra umhverfissinna


Finnur Ricart Andrason, loftslagsfulltrúi

&

Tinna Hallgrímsdóttir, forseti



Umsögn þessi var send inn til Nefndarsviðs Alþingis þann 15. desember 2022 og hefur verið birt á vefi Alþingis.


Comments


bottom of page