top of page

Umsögn um Grænbók um Sjálfbært Ísland

Updated: Aug 30, 2023Ungir umhverfissinnar fagna því að vinna sé loks hafin við stöðumat og mótun stefnu Íslands á sviði sjálfbærrar þróunar. Viljum við þó benda á eftirfarandi atriði sem stjórnvöld þurfa að hafa í huga við stefnumótunarvinnuna framundan.


Hvar er náttúruverndin?

Evrópuskýrsla SDSN og ný útgefin drög að Landrýniskýrslu Íslands (VNR) sýna það skýrt að sum heimsmarkmiðanna hafa ekki fengið mikinn tíma í sviðsljósinu og eru lítið þekkt meðal almennings. Þessi markmið eru einna helst líf á landi og líf í vatni (heimsmarkmið 14 og 15). Ungir umhverfissinnar hafa miklar áhyggjur af því að þessi markmið muni gleymast í umræðunni um sjálfbæra þróun þrátt fyrir að vera í raun undirstöður flestra annara heimsmarkmiðana. Þessar áhyggjur okkar endurspeglast í grafinu efst á bls. 24 þar sem sést að almenningi finnst þessi markmið hvað minnst mikilvæg í samanburði við hin markmiðin og er líklegt að þetta mótist af aðgerðarleysi og áhugaleysi stjórnvalda á þeim.


Lítið sem ekkert er minnst á náttúruvernd og mikilvægi þess að standa vörð um líffræðilega fjölbreytni í kafla 1.1 þar sem áherslur ríkisstjórnarinnar eru taldar upp og sýnir þetta hversu alvarleg staðan er varðandi þetta mál hér á landi. Kafli 3.3.11 um núverandi áherslur umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins gefur sömu mynd þar sem orkuskipti og loftslagsmál taka upp mestan hluta kaflans og skyggja verulega á önnur mál sem ráðuneytið hefur undir sínum höndum og ætti að sinna af jafn miklum þunga. Hér viljum við alls ekki gera lítið úr mikilvægi þess að stjórnvöld geri enn betur til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að sporna gegn loftslagsbreytingum því ekki er verið að gera nóg í þeim málum, heldur viljum við benda á mikilvægi þess að huga að fjölbreyttari lausnum heldur en orkuskiptum.


Ungir umhverfissinnar vilja sjá að áherslur ríkisstjórnarinnar endurspegli þá staðreynd að náttúruvernd, og þá sérstaklega vernd líffræðilegrar fjölbreytni, sé óaðskiljanlegur þáttur í baráttunni við loftslagsvána. Loftslagsaðgerðir án náttúruverndar vinna hreinlega gegn sjálfbærri þróun þar sem vistkerfi jarðar stjórna að miklu leyti loftslaginu og öfugt. Grænbókin, sem er stöðumat á núverandi stöðu, sýnir því skýrt hversu mikið ósamræmi ríkir milli þessara tveggja þátta og viljum við sjá stefnumótunina framundan endurspegla þau flóknu tengsl sem eru til staðar milli loftslagsmála og náttúruverndar.


Einnig harma Ungir umhverfissinnar það að ekki sé minnst á verndun lífræðilegrar fjölbreytni í áherslum Matvælaráðuneytis. Verndun líffræðilegrar fjölbreytni er mikilvæg þegar kemur að fæðuöryggi og ætti þetta málefni að vera hluti af áherslum og markmiðum þessa ráðuneytis. Það að tengja mikilvægi þess að varðveita líffræðilega fjölbreytni við matvælaframleiðslu á Íslandi er því eitthvað sem við köllum eftir því að sjá í afurðum þeirrar stefnumótunarvinnu sem er framundan.


Kafli 4.3.5 um matvæli, land og vatn er opnaður með staðhæfingu um að verndun líffræðilegrar fjölbreytni sé forgangsmál Íslands. Markmið og áherslur ríkisstjórnarinnar endurspegla ekki þessa staðhæfingu heldur þvert á móti virðist þetta málefni hafa verið sett á pásu hjá stjórnvöldum og orðið undir öðrum málefnum í umræðunni um sjálfbæra þróun.


Aðrar ábendingar

Ungir umhverfissinnar telja að skýrari áherslur, til viðbótar við kafla 4.4.6, þurfi til að draga úr neikvæðum spilliáhrifum (e. spillover effects), sérstaklega í málaflokkum hringrásarhagkerfis, loftslags og alþjóðasamvinnu. Slíkt ætti að vera hluti af áherslum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis (kafli 3.3.11) og lykilþáttur í eflingu hringrásarhagkerfis og græns efnahags (kafli 4.3.1). Frekari alþjóðasamvinnu er þörf í þeim efnum (kafli 4.3.7) og sérstaklega þarf að gæta að Ísland nái ekki markmiðum sínum í umhverfismálum á kostnað annara landa.


Varðandi tæknilegri atriði þá er alvarlegt að í kafla 3.3.11 sé verið að tala um markmið um kolefnishlutleysi í samhengi við viðmiðunarár. Enn og aftur bendum við á að ríkisstjórnin hefur ekki sett fram fullnægjandi skilgreiningu á markmiði sínu um kolefnishlutleysis eins og við og önnur samtök, ásamt Loftslagsráði, höfum ítrekað bent á. Raunverulegu kolefnishlutleysi verður ekki náð nema að losun sé talin á ársgrundvelli og er þetta sérstaklega mikilvægt í samhengi við losun sem fellur undir LULUCF losunarflokkinn.


Einnig vantar mikið upp á umfjöllun um og áherslu á réttlát umskipti í samhengi við aðgerðir til að sporna gegn loftslagsbreytingum og hnignun vistkerfa.

Varðandi kafla 3.7.4 viljum við benda á uppfærða stefnu félagsins sem má finna hér, og þá sérstaklega textann sem er að finna á bls. 3.


Að lokum

Við yfirferð þessarar grænbókar virðist jafnvægis ekki gætt milli náttúruverndar og loftslagsaðgerða. Þetta sýnir að ójafnvægi ríkir milli þessara tveggja málaflokka þrátt fyrir jafnt mikilvægi og mikil tengsl milli þeirra. Í þeirri stefnumótunarvinnu sem er framundan köllum við sterklega eftir því að aukin áhersla verði sett á raunverulega náttúruvernd sem þarf ekki að lúta lægra höfði gagnvart aðgerðum í loftslagsmálum.


Til viðbótar við aukið jafnvægi í þessum málum viljum við fá meira en orð sem segja að það sé mikilvægt að huga að loftslagsmálum og náttúruvernd samhliða. Við viljum sjá að stjórnvöld skilji virkilega hver tengslin eru milli þessara tveggja málaflokka og hvernig þau ætli að tryggja að aðgerðirnar sem gripið verði til séu fullnægjandi til að tryggja árangur í báðum málaflokkum til framtíðar.---

Fyrr hönd Ungra umhverfissinna,

Sæunn Júlía Sigurjónsdóttir, náttúruverndarfulltrúi

Finnur Ricart Andrason, forseti

29. maí 2023


bottom of page