Við kynnum með stolti útgáfuna Spírur, ungir rithöfundar fyrir umhverfið!! Útgáfan samanstendur af 30 sögum sem grunnskólabörn sendu inn úr öllum áttum. Bókverkið er afrakstur ritlistarkeppni sem Ragnhildur Katla, fræðslufulltrúi og fræðslunefnd UU stóð fyrir. Verkefnið var styrkt úr Loftslagssjóði ungs fólks og við gætum ekki verið ánægðari með niðurstöðurnar.
Ritlistarkeppnin stóð yfir síðastliðið haust þar sem börnum á grunnskólaaldri um allt land var boðið að skrifa sögur, ljóð, myndasögur eða annað skapandi efni sem hafði umhverfismál, náttúruna og/eða loftslagsmál að leiðarljósi. Markmiðið með verkefninu var að koma röddum barna varðandi umhverfis- og náttúruvernd á framfæri og auka þátttöku þeirra í málaflokknum. Eins og okkur öllum er kunnugt steðjar mikil ógn af loftslagsvánni nú sem og í náinni framtíð og er því mikilvægt að hugmyndir, áhyggjur og framtíðarsýn barna fái að heyrast.
Yfir 100 ljóð og sögur bárust hvaðanæva af landinu, jafn fjölbreyttar og þær voru margar ! Verkefni dómnefndar reyndist krefjandi þar sem velja þurfti sigurvegara í tveimur aldursflokkum:
Yngri flokkur / 5-10 ára:
1.sæti : Elínbjört Sara Ástudóttir, Húsaskóla, 5 ára
2-3.sæti : Sóley Káradóttir, Vesturbæjarskóla, 10 ára
2-3.sæti : Katrín Halla Finnsdóttir, Grunnskóla Drangsness, 10 ára
Eldri flokkur / 11-15 ára:
1.sæti : Eyþór Páll Ólafsson, Naustaskóla, 13 ára
2-3.sæti : Kermit Madej, Landakotsskóla, 14 ára
2-3.sæti : Krishika Peddishetti, Landakotsskóla,11 ára
Dómnefnd valdi að lokum 30 verk til þess að setja saman í bókverk sem gefið var út í Safnahúsinu um helgina og verður dreift í bókasöfn grunnskóla landsins. Þá voru allar 100 sögurnar til sýnis í Safnahúsinu um helgina og óska Ungir umhverfissinnar höfundum þeirra allra innilega til hamingju.

Komentarze