ReGeneration Week hefur verið haldin ár hvert síðan 2018 á Álandseyjum af samtökunum ReGeneration 2030. Þar hittast ungmenni og samtök frá 18 löndum á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndunum til að fjalla um sjálfbæra þróun.
Bára Örk fræðslu og kynningarfulltrúi og Evan Greene meðstjórnandi í hringrásarhagkerfisnefnd ferðuðust til Álandseyja í ágúst síðastliðnum sem fulltrúar Ungra umhverfissinna.
Frá loftslagsverkfallinu Mynd: ReGeneration 2030
Álandseyjar eru sjálfstjórnarhérað í Finnlandi og er eyjaklasi í miðju Eystrasaltshafi, þar búa um 30 þúsund manns. Vikan hófst á föstudeginum 11. Ágúst. Þá var vel við hæfi að byrja á kröfugöngu og loftslagsverkfalli í höfuðborg Álandseyja, Mariehamn. Það var mjög gleðilegt að sjá viðbrögð og þátttöku íbúa þar sem hvöttu okkur áfram og slógust í hópinn.
Yfir helgina voru fjöldamargar vinnustofur og pallborðsumræður. Við héldum okkar vinnustofu á laugardeginum. Þar kynntum við verkefnin Sólina og Tunglið. Sólin var verkefni sem UU stóð fyrir árið 2021 fyrir Alþingiskosningar þá um haustið. Sólin er kvarði til að meta stefnur stjórnmálaflokka útfrá umhverfismálum. Meira má lesa um Sólina á solin2021.is. Tunglið er svo verkefni sem við erum að fara af stað með til að meta hvað flokkum á þingi hefur áunnist í umhverfismálum nú þegar kjörtímabilið er hálfnað. Í vinnustofunni fórum við í saumana á Sólinni, skipulagningu og framkvæmd verkefnisins í heild sinni. Helmingur vinnustofunnar fór svo í að ræða hvernig svipað verkefni gæti litið út í heimalöndum þátttakenda. Þar var af nógu að taka enda margt ólíkt. Kolavinnsla, kjarnorka, Evrópulöggjöf, heimsmarkmið og málfrelsi var meðal þess sem bar á góma. Það var mjög gaman að heyra mismunandi sjónarhorn og hugmyndir um framkvæmd verkefnisins í öðru samhengi.
Frá vinnustofu um Sólina og Tunglið. Mynd: Alix Gabaude
Fyrir utan okkar vinnustofu höfðum við tækifæri til að sækja margar aðarar. Þar má nefna vinnustofunni ‘Sue the state’ um hvað þarf að hafa í huga þegar farið er í málsókn við stjórnvöld eða opinbera aðila vegna vanrækslu umhverfismála. Ein af okkar uppáhalds vinnustofum var svo haldin af Climate Fresk í Svíþjóð sem er einskonar spil til að átta sig á þeim þáttum sem eiga í hlut þegar kemur að loftslagsbreytingum og hvernig þeir þættir tengjast. Vinnustofa um þær menningar breytingar sem þurfa að eiga sér stað til að ná sjálfbærni markmiðum með kynningu Barkraft stofnunarinnar sem vinnur að sjálfbærnimarkmiðum Álandseyja. Nordregio hélt vinnustofuna ‘Diversify or die’ sem fjallaði um kynjahalla í hreyfingum tengdum umhverfisvernd og sjálfbærni og velti upp hvað væri hægt að gera í því. Þá voru einnig fjölmargar vinnustofur sem við höfum ekki tök á að mæta á því það var margt í gangi. En það er víst að við erum fróðari og víðsínni eftir vinnustofur helgarinnar.
Þátttakendur fyrir utan ráðhúsið í Mariehamn. Mynd: ReGeneration 2030
Á seinustu dögum vikunnar var ný stjórn ReGeneration 2030 kosin og hlökkum við mikið til að fylgjast með þeim og vinna áfram með þeim. ReGeneration leggur einnig ríka áherslu á samtal milli kynslóða (e. Intergenerational dialouge). Því voru einnig margir eldri þátttakendur, stjórnmálafólk, stjórnendur stofnana og samtaka, prófessorar, fulltr
úar fjárfesta og annara fyrirtækja og aðrir. Þá settust ungir og aldnir við sama borð og töluðu við hvort annað sem jafninga og af hreinskilni um þær áskoranir sem við stöndum fyrir og þær aðgerðir sem þurfa að eiga sér stað. Auðvitað var einnig þrýst á marga af þeim eldri sem flest eru í valdastöðum til að gera sitt af mörgum og láta ekki sitja við orðin tóm. Við vorum bæði í hópum sem ræddum spurninguna hvað meinum við þegar við tölum um kerfisbreytingar. Það var mjög stór spurning og mjög margar áhugaverðar hugmyndir og pælingar sem komu upp í þeim umræðum. Það er ekki hægt að segja að ungir og aldnir hafi haft sömu skoðanir en flestir voru til í að hlusta á sjónarhorn hinna.
Við förum frá hinum friðsælu og grónu Álandseyjum uppfull af von og þakklæti fyrir frábæra viku með aðdáunarverðum aktívistum af öllum toga. Við þökkum líka kærlega Nordregio fyrir en þau styrktu okkur til ferðarinnar.
---
Bára Örk Melsted Kynningar- og fræðslufulltrúi Ungra Umhverfissinna
bara@umhverfissinnar. is
-
Evan Greene
Meðstjórnandi í Hringrásarhagkerfisnefnd
Comments