Árlega koma aðildarríki rammasamnings Sameinuðu þjóðana um loftslagsbreytingar (UNFCCC) saman í Bonn í Þýskalandi til að ræða saman og semja um hvernig hægt sé að ná frekari árangri í loftslagsmálum á heimsvísu. Þessi árlega Bonn-ráðstefna er einskonar undirbúningsfundur fyrir árlegan aðildaríkjafund UNFCCC (e. COP) sem haldinn er á nýjum stað á hverju ári og yfirleitt í nóvember eða desember. Á þessu ári verður COP28 haldin í Dubai í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum (e. UAE) milli 30. nóvember og 12. desember.
Síðastliðin júní sótti ég umrædda Bonn-ráðstefnu þessa árs (SB58) sem ungmennafulltrúi Íslands til Sþ. á sviði loftslagsmála og var ég því hluti af sendinefnd Íslands á fundinum. Margt var rætt á þessari 10 daga ráðstefnu en því miður var lítið um raunverulegar framfarir þó það hafi alveg verið viðbúið.
Ég fylgdist mest með vinnustraumi sem ber heitið Global Stocktake og er fyrirbæri sem var samið um undir Parísarsáttmálanum og hefur það markmið að meta árangur okkar hingað til við að ná markmiðum Parísarsáttmálans. Þetta ferli á að endurtaka á fimm ára fresti til að hægt sé að greina hvar sé þörf á að grípa fastar í taumana. Núna, árið 2023, er komið að fyrstu stöðutökunni af þessari gerð og var þetta því eitt af aðalumræðuefnum Bonn-ráðstefnunnar í ár. Lögð verður lokahönd á þetta ferli á COP28 undir lok þessa árs.
Það var gaman að sjá hvað voru mörg lönd sem vildu að þetta ferli yrði unnið á faglegan og metnaðarfullan hátt og að það myndi skila skýrum og gagnlegum pólitískum sikalobuðm sem hægt væri að nýta til að auka metnað loftslagsaðgerða á heimsvísu. Meðal þessara landa voru ESB ríkin, Bandaríkin, Kanada, Ástralía, Japan, löndin í EIG samningahópnum, löndin í AOSIS samninghópnum, o.fl. (sjá samsetningu samningahópa hér). Afstaða Íslands er yfirleitt á svipuðum nótum og Bandaríkin, Kanada, Ástralía og önnur Vesturlönd og var það einnig raunin í þessum umræðum um stöðutökuna þó að Ísland hafi mjög lítið tjáð sig um hana og gert lítið sem ekkert til að hafa jákvæð áhrif á niðurstöðurnar.
Megin ágreiningurinn í umræðunum um stöðutökuna var hvort tekið yrði tillit til gjörða Vesturlanda í fortíðinni, m.a. mikillar sögulegrar losunar þeirra, eða ekki. Vesturlöndin voru mjög hörð á því að fallast ekki á þessa kröfu þróunarríkja um að taka tillit til svokallaðra ‘pre-2020 gaps’ sem er virkilega ósanngjarnt vegna mikillar uppsafnaðar losunar og skorti á fjárveitingum til loftslagsaðgerða í efnaminni ríkjum á undanförnum áratugum.
Sádi Arabíaa tjáði sig mikið fyrir hönd Arabaríkja og hóp þróunarríkja en tillögur þeirra voru oft til þess fallnar að koma einfaldlega í veg fyrir að hægt væri að sigla í átt að sátt þar sem allir samningsaðilar gæfu eitthvað eftir.
Mynstrið sem hægt var að greina í afstöðu ríkja til þessarar stöðutöku lýsir vel almennu ágreiningslínum landa á vettvangi UNFCCC þar sem
smáeyríkin og allra fátækustu löndin krefjast stóraukinna aðgerða af öllum aðilum,
Vesturlönd segjast einnig vilja stóraukinn metnað en eru ekki endilega tilbúin að viðurkenna eigin ábyrgð né fylgja þessum metnaði eftir með fullnægjandi fjármagni,
þróunarríki krefjast aukins fjármagns af Vesturlöndum vegna þess að þau geta ekki staðið undir kostnaðinum af nauðsynlegum loftslagsaðgerðum, og
fyrrverandi þróunarríki (og oftar en ekki olíuríki s.s. Sádi Arabía) krefjast aukins fjármagns af Vesturlöndum en reyna nánast allt sem í valdi þeirra stendur til að koma í veg fyrir framfarir í samningaviðræðunum.
Önnur mál sem voru mikið rædd á SB58 í Bonn voru m.a.
útfærslan á bótasjóðnum fyrir töp og tjón sem samþykkt var á COP27 að koma á fótinn,
hnattrænt markmið um aðlögun að loftslagsbreytingum, og
Einnig setti ágreiningur um dagskrá fundarins sinn svip á fundinn. Í upphafi fundarins kom upp ágreiningur um hvað ætti að vera á dagskrá fundarins og hvað ekki, þá sérstaklega varðandi vinnustrauminn um mótvægisaðgerðir (e. MWP) sem ESB hafði lagt til að yrði bætt við á dagskránna. Í skiptum fyrir að bæta þessu við á dagskránna vildi hópur þróunarríkja bæta við dagskrárlið um aukna fjármögnun en Vesturlöndin harðneituðu því. Til að koma í veg fyrir að þessi ágreiningur hefði meiriháttar áhrif á samningaviðræðurnar var fundurinn settur og unnið í því að leysa ágreininginn samhliða umræðunum um allt hitt sem var á dagskránni. Á endanum var dagskráin ekki samþykkt fyrr en undir lok fundarins og fór það svo að hvorki MWP né dagskrárliðnum um aukna fjármögnun var haft á samþykktu dagskránni sem flest aðildarríki voru mjög svekkt með.
Heilt yfir varð ég fyrir vonbrigðum vegna þess hve litlum árangri var náð á fundinum en þó náðu samningaraðilar ákveðnum framförum í einhverjum málum sem verður vonandi hægt að byggja á undir lok þessa árs á COP28. Ljóst er að það er mikil vinna framundan og nauðsynlegt að Vesturlönd viðurkenni aukna ábyrgð og að ákveðin vandræðalönd sem gæta einungis eigin skammtímahagsmuna hætti því undir eins.
Á COP28 þurfa íslensk stjórnvöld að hafa meira frumkvæði, taka þátt á mun virkari máta og með meira afgerandi hætti heldur en þau hafa gert á loftslagsráðstefnum Sþ. til þessa. Þessi vettvangur UNFCCC er mikilvægur til að stilla strengi nær allra þjóða heims í loftslagsmálum og skapa pólitískan þrýsting til að auka metnað. Ísland hefur áður haft jákvæð og afgerandi áhrif í alþjóðapólitík og þurfa íslensk stjórnvöld að endurtaka slíka takta á sviði loftslagsmála. Skýra sýn hefur skort hingað til varðandi þátttöku Íslands á slíkum ráðstefnum og köllum við í Ungum umhverfissinnum eftir slíkri sýn og að hún verði metnaðarfull.
Hins vegar er einnig mikilvægt að við getum sýnt fram á metnað og árangur heima fyrir ef við viljum þrýsta á aukinn metnað á heimsvísu, þannig að stjórnvöld þurfa einnig bráðnauðsynlega að snarauka metnað loftslagsaðgerða hérlendis.
Ungir umhverfissinnar munu senda fulltrúa á COP28 til að fylgjast með gangi mála, veita íslensku sendinefndinni aðhald, og miðla upplýsingum frá ráðstefnunni aftur heim til íslensks almennings.
---
Finnur Ricart Andrason
Forseti Ungra umhverfissinna
finnur@umhverfissinnar.is
Comments