top of page

Landsfundur UU um loftslagsmál

Þann 6. Janúar héldu um 50 hressir Ungir Umhverfissinnar yfir Hellisheiðina og lá leið þeirra á Hótel Örk í Hveragerði. Fyrstu helgina í janúar var haldinn fjórði Landsfundur Ungra Umhverfissinn, sá síðasti í bili, og var umfjöllunarefnið loftslagsmál.


Fundurinn stóð í þrjá daga og samanstóð af fjórum þemum. Í hverju þema voru haldin áhugaverð erindi og að erindum loknum tóku við umræður í hópum. Punktarnir úr umræðunum voru svo unnir áfram af sérstakri ritnefnd sem mun innleiða niðurstöður umræðanna inn í nýja stefnu Ungra Umhverfissinna í loftslagsmálum. Upptökur að öllum erindum verða gerðar aðgengilegar von bráðar á YouTube rás UU.


Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra heldur upphafsræðu.

Opnunarávarp hélt Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og líkti hann loftslagsmálum við stríðsástand til að draga fram stærðargráðu vandans og hvernig viðbrögðin þurfa að vera, en sumum fannst þessi líking þó ekki heppileg. Fyrsta daginn var fjallað um Loftlagsmál á Íslandi þar sem við fengum erindi frá Sævari Helga Bragasyni um vísindin á bak við loftslagsbreytingar. Síðan fræddi Rafn Helgason okkur um hvaðan losunin á Íslandi kemur og að lokum ræddi Jukka Heinonen um neysludrifna losun. Eftir formlega dagskrá var haldið í pizzur og local bjór í brugghúsinu Ölverk.


Á degi tvö voru tvö þemu tekin fyrir. Fyrra þemað var Loftslagsmál og valdhafar og hófst dagurinn á fræðslu frá Finni Ricart Andrasyni um loftlagsmarkmið íslenskra stjórnvalda. Á eftir honum kom Jean-Rémi Chareyre og fjallaði um fjölmiðlaumfjöllun um loftslagsbreytingar, síðan ræddi Kristján Guy Burgess um pólitískan vilja og ábyrgð í loftslagsmálum, og að lokum fjallaði Harpa Júlíusdóttir um hlutverk atvinnulífsins í loftslagsmálum. Seinna þemað var Loftslagsréttlæti og hófst það þema með umfjöllun um siðferðilegar skyldur Íslands í loftslagsmálum með Hlyni Orra Stefánssyni. Næst fengum við tvær áhrifaríkar umfjallanir um eigin upplifanir á loftslagsbreytingum, Helga Hvanndal Björnsdóttir fjallaði um aurskriðurnar á Seyðisfirði í desember 2020 og Samuel Chijioke fjallaði um vegferð sína sem loftslagsaktívisti í Nígeríu og það sem hvatti hann út á þessa braut.


Hópaumræður um lausnir við loftslagsvánni í fullum gangi!

Einnig sem hluti af þemu þrjú var haldið líflegt pallborð með Hlyni Orra, Helgu Hvanndal, Ísabellu Ósk Másdóttur og Tinnu Hallgrímsdóttur. Um kvöldið héldu Ungir Umhverfissinnar yfir á mathöll Hveragerðis, Gróðurhúsið, og snæddu þar alls konar grænkera gotterí saman. Eftir kvöldverð fengum við dásamlega skemmtidagskrá sem Rakel Ósk úr skemmtinefndinni skipulagði. Kom í heimsókn til okkar Jóhann Gunnarsson og sagði okkur frá því þegar hann fór á eftirlaun og byrjaði að smíða orgel. Með í för hafði hann pípuorgel, sem hann hafði smíðað sjálfur, og spilaði hann fyrir okkur ljúfa tóna.


Seinasta daginn ræddum við lausnir og fengum við mörg fjölbreytt erindi um þær lausnir sem við getum horft til gegn loftlagsvánni. Fyrir hádegi voru fjögur erindi: Þórunn Wolfram Pétursdóttir fjallaði um náttúru miðaðar lausnir, Gísli Sigurgeirsson fræddi okkur um orkumál, Áróra Árnadóttir talaði um viðhorfs- og hegðanabreytingar, og Anna Hulda Ólafsdóttir ræddi um aðlögun að loftslagsbreytingum. Eftir hádegi voru einnig flutt fjögur erindi: Arnhildur Hálfdánardóttir fjallaði um loftslagskvíða, Þorgerður María Þorbjarnardóttir flutti erindi um miðlun upplýsinga um loftslagsmál, Andri Snær Magnason talaði um orðræðu og loftslagsmál og Tinna Hallgrímsdóttir sló svo botninn í Landsfundinn með hvetjandi orðum um kraft aktívisma í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.


Í lok landsfundarins var greinilegt að aukinn baráttuvilji og von var í hópnum og komu þátttakendur út úr helginni með fullt af nýjum fróðleik að vopni og tilbúin til að setja enn meira púður í baráttuna gegn loftslagsbreytingum.


Verið er að vinna að efnislegri samantekt frá fundinum sem verður nýtt við mótun á nýrri stefnu UU á næstu mánuðum. Þessi efnilega samantekt verður gerð aðgengileg hér á heimasíðu UU á næstu vikum.


Höfundur þessarar samantektar er Inga Huld Ármann, meðstjórnandi Loftslagsnefndar UU.


Kátir þátttakendur í lok Landsfundar :)Comments


bottom of page