Þann 3. júní s.l. sendu Ungir umhverfissinnar frá sér fréttatilkynningu með þeim upplýsingum að leitað yrði allra mögulegra leiða til að hefja málsókn gegn íslenska ríkinu ef hvalveiðar yrðu ekki stöðvaðar . Rök fyrir því að hætta hvalveiðum eru byggð á skýrslu frá MAST og öðrum gögnum sem sýna að hvalir skipta sköpum fyrir heilbrigði vistkerfa í hafi og að hvalveiðar, eins og þær hafa verið stundaðar af Hval hf., brjóti í bága við markmið dýraverndarlaga , alþjóðasamninga um hvalveiðar , og jafnvel alþjóðleg mannréttindalög.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, tók þá ákvörðun fyrr í sumar að fresta upphafi hvalveiðitímabilsins til 1. september skömmu eftir að tilkynnt var um þessa hugsanlegu málsókn. Við, og fleiri sem hafa talað gegn hvalveiðum á undanförnum mánuðum, höfum hins vegar ekki lagt árar í bát: okkar krafa er enn sú að hvalveiðar verði bannaðar fyrir fullt og allt í þágu loftslagsins, vistkerfa, og samfélagsins.
Fyrsti september nálgast óðfluga og því nálgast einnig ákvörðun matvælaráðherra um það hvort hvalveiðar verði leyfðar það sem eftir er af veiðitímabilinu eður ei. Þetta er okkar tækifæri til að koma saman og þrýsta á stjórnvöld til að tryggja betri framtíð því afleiðingar hvalveiða snerta okkur öll.
Fullyrt hefur verið í fjölmiðlum að hvalveiðar takmarki loftslagsbreytingar þar sem öndun hvala losar mikið magn koltvísýrings. Eru þessar fullyrðingar einföldun á flóknu virki vistkerfa. Þó það sé vissulega rétt að hvalir séu stór dýr sem anda frá sér miklu magni koltvísýrings líkt og hvert annað lifandi dýr, maðurinn meðtalinn, þá er þetta aðeins einn hluti stóru myndarinnar. Hvalir eru hluti af afar merkilegu vistkerfi. Stórir hvalir, líkt og langreyðar, borða að mestu ljósátu og annað dýrasvif og hafa þeir skíði sem þeir nota til þess að sía þessi örsmáu dýr frá sjónum. Úrgangur þeirra flýtur til yfirborðs sjávar þar sem hann sér öðru svifi fyrir mikilvægum næringarefnum líkt og köfnunarefni. Þetta svif er að mestu smáþörungar sem notar koltvísýring til að framleiða sykrur og losa í leið súrefni. Svifþörungar eru afar mikilvægir í súrefnismyndun en þeir sjá fyrir meiri framleiðslu súrefnis en allir regnskógar heims samanlagðir . Við enda lífsferilsins sökkva hvalshræ niður á botn sjávar þar sem kolefni sem geymt er í líkama þeirra er nýtt af botnsjávarlífverum eða tryggilega fest í seti. Þetta skapar nær fullkomna hringrás næringarefna og kolefnis sem þróast hefur í aldaraðir, hringrás sem við rjúfum með hvalveiðum.
Einnig hafa komið fram fullyrðingar um að nýjar veiðiaðferðir geti tryggt það að þjáning hvala verði nærri engin. Hvalur hf. hefur til þessa notað sprengiskutla en áform eru um að nota skutla með raflosti. Grein frá árinu 2023 sem birtist í fræðiritinu “Animal Welfare” og byggir á upptökum frá japönskum hvalveiðiskipum þar sem rafskutlar voru notaðir greindi frá því að „aðeins lítill hluti straumsins myndi fara í gegnum heilann og er sleglatif ólíklegt. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að straumurinn sem er notaður er líklega fimmtíu til hundrað sinnum of lítill til að valda hjartaflökti eða truflun á heilastarfsemi. Mannúðlegum dauða verður ekki náð með ónákvæmum skotum á skutlum og ófullnægjandi notkun á raflosti.”
Ef hvalveiðar verða leyfðar á ný erum við að senda þau skilaboð til framtíðarkynslóða og samfélaga á víglínum loftslagsbreytinga að aðgerðir okkar eru ekki byggðar á vísindalegum rökum né samkennd. Það sem meira er að í könnun sem gerð var fyrr á þessu ári kom fram að rúmlega helmingur íslensku þjóðarinnar sé ekki hlynntur áframhaldandi hvalveiðum . Það að banna hvalveiðar fyrir fullt og allt er okkar tækifæri til að sýna heiminum að Ísland er staðráðið í að bregðast fullnægilega við loftslagsbreytingum og hnignun líffræðilegs fjölbreytileika. Hvort sem okkar verður minnst sem þjóð sem verndaði hvali eða þjóð sem drap þann síðasta ákvarðast af gjörðum okkar í dag.
Cody Skahan, loftslagsfulltrúi og mastersnemi í mannfræði er höfundur þessar greinar sem birtist á mbl.is þann 29. ágúst 2023
Comments