top of page

Fundur stjórnar með matvælaráðherra um COP27 og COP15

Stjórn UU fundaði með Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra í annað skipti á þessu starfsári núna í janúar og voru COP27 og COP15 þar helst til umræðu.


Frá vinstri: (efsta röð) Kári Gautason, Svandís Svavarsdóttir, Egill Ö. Hermannsson, (miðju röð) Finnur Ricart Andrason, Brynja Þorsteinsdóttir, (neðsta röð) Ástrós Eva Ársælsdóttir, Kolbrún Fríða Hrafnkelsdóttir, Björn Helgi Barkarson.

Fyrst ræddum við um loftslagsmálin og þá aðallega um hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í kjölfar COP27, aðildarríkjaþing Sþ. um loftslagsbreytingar sem fulltrúar UU (sjá mynd að neðan) sóttu í Egyptalandi í Nóvember á síðasta ári. Svandís sagði okkur að hún og Guðlaugur Þór hafi farið með sameiginlegt erindi inn í ríkisstjórnina eftir ráðstefnuna til að kynna helstu niðurstöður þaðan. Hún sagði okkur einnig að hún hafi fyrir nokkru óskað formlega eftir því að ráðherranefnd um loftslagsmál fundi til að ræða þessi mál. Í því samhengi lögðum við í stjórninni sérstaka áherslu á að Ísland þyrfti að uppfæra landsframlag sitt til Loftslagssamning Sþ. (sem sagt að gera það metnaðarfyllra) í síðasta lagi fyrir COP28 sem mun fara fram í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum seint á þessu ári. Einnig bentum við á að enn vantar markmið um samdrátt í heildarlosun Ísland þar sem losun frá landi er tekin með í reikninginn og báðum við Svandísi um að ræða þetta á fundi ráðherranefndarinnar þegar hún kemur saman.


Fulltrúar UU á COP27. (Frá vinstri: Egill Ö. Hermannsson, Steffi Meisl, Tinna Hallgrímsdóttir, Finnur Ricart Andrason)

Næst ræddum við um náttúruverndarmálin í samhengi við niðurstöður COP15, aðildarríkjaþing Sþ. um líffræðilega fjölbreytni sem fulltrúar UU (sjá mynd að neðan) sóttu í Kanada í Desember á síðasta ári. Þar var samþykktur nýr alþjóðlegur rammi um vernd líffræðilegrar fjölbreytni á heimsvísu og sett fram markmið um að 30% yfirborðs jarðar (sjór þ.m.t.) verði verndað fyrir árið 2030. Ísland á langt í land þar sem við höfum einungis friðað 12% af landsvæði okkar og 0.07% af hafsvæðum okkar. Við spurðum Svandísi því út í það hvaða skref yrðu tekin á næstunni til að tryggja að Ísland nái að standa við þessi markmið. Hún sagði að vinna við þetta væri farin af stað en við bíðum frekari upplýsinga um þetta ferli. Við lögðum áherslu á að við fengjum að taka þátt í þessu stefnumótnarferli sem hún tók vel í og við vonumst því til að flytja ykkur frekari fréttir af þessum málum á næstunni.


Fulltrúar UU á COP15. (Frá vinstri: Helga Hvanndal Björnsdóttir, Sigrún Perla Gísladóttir)

Næsti fundur stjórnar með Svandísi verður 15. mars og verður þema þess fundar einmitt Sjókvíaeldi og verndarsvæði í hafi. Endilega sendið okkur póst á ungir@umhverfissinnar.is ef það er eitthvað sem þið viljið að við komum á framfæri eða spurjum um á þessum næsta fundi okkar með matvælaráðherra.


Comments


bottom of page