top of page

Framboð í stjórn UU 2024

Updated: Apr 26


Kosið verður í nýja stjórn Ungra umhverfissinna á aðalfundi félagsins 27. apríl n.k. Hægt er að bjóða sig fram í gegn um þetta form eða á fundinum sjálfum. Hér fyrir neðan birtum við jafn óðum þau framboð sem berast í gegn um formið.


Frekari upplýsingar um aðalfund Ungra umhverfissinna 2024 má finna hér.FRAMBOÐ Í STJÓRN UNGRA UMHVERFISSINNA 2024:Finnur Ricart Andrason býður sig fram í embætti forseta.

Kæru ungu umhverfissinnar! Ég býð mig fram í embætti forseta UU á ný til að halda áfram að berjast fyrir lífvænlegri framtíð ungs fólks og tilvistarrétti náttúrunnar. Mér finnst ótrúlega skemmtilegt að vinna með ykkur öllum í þessu félagi og mér finnst ég hafa lært svo ótal margt í þessu leiðtogahlutverki á líðandi starfsári sem mig langar að nýta í að halda áfram að byggja upp félagið og hafa jákvæð áhrif í umhverfismálum á Íslandi. Ég hef sankað að mér mikilli þekkingu og reynslu í minni þriggja ára stjórnarsetu (sem og í námi og öðrum umhverfistengdum verkefnum) sem mig langar að halda áfram að nýta til góðs innan félagsins. Einnig hef ég lokið háskólanámi í hnattrænum sjálfbærnivísindum, unnið að rannsóknarverkefnum og vísindamiðlun á sviði náttúruverndar og loftslagsmála, setið í starfshópi ráðherra um loftslagsaðlögun, sótt margar alþjóðlegar loftslagsráðstefnur Sþ. sem hluti af sendinefnd Íslands, o.fl. Ég er stoltur af þeim árangri sem við höfum náð saman á þessu starfsári, takk fyrir traustið sem þið hafið öll sýnt mér og ég vona að ég fái að njóta trausts ykkar áfram <3

Snorri Hallgrímsson býður sig fram í embætti varaforseta.

Sæl verið kæru umhverfissinnar. Ég er sitjandi ritari UU og býð mig nú fram til varaformanns UU því ég tel starfi mínu innan samtakana ekki lokið. Ég hef ásamt hefðbundnum stjórnarstörfum setið fyrir hönd UU í ráðgjafanefnd Norrænu ráðherranefndarinnar og hagsmunaráði Úrvinnslusjóðs. Hef ég við störf mín fyrir félagið byggt upp þekkingu sem mig langar að halda áfram að auka við sem ég held áfram að leggja mitt að mörkum við að auka mátt félagsins og meginn. Ég er þessutan upprunalega frá Húsavík, með B.Sc. gráðu í heilbrigðisverkfræði og starfa sem sérfræðingur í vöruþróun fyrir Össur. Samhliða fer ég með sæti Íslands í Evrópskum og alþjóðlegum staðlanefndum.

Sólveig Jóhannesdóttir Larsen býður sig fram í embætti gjaldkera.

Ég hef áhuga á að starfa með ykkur og bæta í reynslubankann að sjá um fjármál fyrir félag sem stendur fyrir bættu umhverfi og samfélagi. Ég hef áhuga á að kynna mér aðferðir til að auka innkomu félagsins.

Mahin Rahimpour býður sig fram í embætti gjaldkera.

I am studying International business at university of Iceland. I have experience in banking and financial services.

Laura Sólveig Lefort Scheefer býður sig fram í embætti hringrásar-hagkerfisfulltrúa.

Heil og sæl, ég heiti Laura Sólveig og er 24 ára umhverfissinni. Ég er með BS í umhverfisfræði frá háskólanum í Wageningen í Hollandi og vinn sem verkefnastjóri í sjálfbærni hjá Regin. Ég hef mikinn áhuga á sjálfboðaliðastarfi og hef töluverða reynslu bæði sem meðlimur og í stjórn ýmissa félaga. Ég hef, sem dæmi, barist fyrir réttindum flóttamanna á Íslandi á vegum No Borders og Refugees in Iceland, setið í stjórn skiptinemasamtakana AFS, verið meðlimur og formaður femínistafélagsins Emblu, og unnið sem teymisstjóri markaðsdeildarinnar í AIESEC. Núna þegar ég er ný flutt heim úr námi brenn ég fyrir að láta gott af mér leiða og er þess vegna að gefa kost á mér sem hringrásarhagkerfisfulltrúi í stjórn UU. Ég vonast til þess að fá ykkar stuðning og hlakka til að sjá ykkur á laugardaginn!

Fífa Jónsdóttir býður sig fram í embætti kynningar- og fræðslufulltrúa.

Ég er búin að vinna í miðlun náttúruverndar- og loftslagsmála síðustu þrjú ár hjá Landgræðslunni og veit vel hvað er mikilvægt að málefni Ungra umhverfissinna séu sýnileg á samfélagsmiðlum.

Ragnhildur Katla Jónsdóttir býður sig fram í embætti kynningar- og fræðslufulltrúa.

Ég heiti Ragnhildur og hef yndi af náttúrunni á marga vegu. Ég vann með UU í strætó herferðinni í haust og hef unnið mikið með umhverfis aktivisma í gegnum list. Ég er listakona og útskrifuð úr sálfræði þar sem ég var forseti nemendafélags og meðlimur fræðslufélagsins Hugrúnar. Þar með er ég óhrædd við að standa á sviði og kunnug allskyns fyrirlestrum.

Ida Karólína Harris býður sig fram í embætti loftslagsfulltrúa.

Ég hef verið virk í UU og loftslagsmótmælunum á föstudögum síðan 2019. Mig langar til að leggja ennþá meiri áherslu á loftslagsmótmælin og á að vald efla ungt fólk til að láta skoðanir sínar heyrast.

Páll Gunnarsson býður sig fram í embætti loftslagsfulltrúa.

Undanfarin tvö ár hef ég stofnað og þróað nýsköpunarfélag á sviði loftslagsmála á styrk frá Tækniþróunarsjóði. Á þeim tíma hef ég sankað að mér sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum loftslagsmála, m.a. hvað varðar orkuskipti í flutningum og nýtingu sjávar til jákvæðra loftslagsáhrifa. Áður en líf mitt fór að snúast um loftslagsmál, starfaði ég sem hugbúnaðarverkfræðingur og vöruþróunarstjóri hjá nýsköpunarfélagi sem beitti tölvusjón til að m.a. berjast gegn barnamisnotkun og hryðjuverkum og náði þeim áhugaverða árangri að verða ‘impact unicorn’ í gegnum notkun Meta á hugbúnaðinum. Þar öðlaðist ég mikla og viðeigandi reynslu fyrir starf í þágu UU, m.a. starfaði ég í samvinnuhópum á milli iðnaðar, mannréttindasamtaka og alþjóðastofnana hjá Interpol og Global Internet Forum to Counter Terrorism. Ég var einnig álitsgjafi og hélt umtalsverða kynningu fyrir Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins varðandi nýlega lagasetningu. Eftir að ég kvaddi hugbúnaðargeirann, starfaði ég stuttlega hjá íslenskum VC sjóð, sem gaf mér tólin til að síðar byggja upp skilning á fjárfestingahlið loftslagsmála og standa í eigin fjárfestingum í loftslagsnýsköpun.
Ég vill bjóða mig fram til stjórnar UU því ég sé bæði mikla vöntun og tækifæri til að lyfta loftslagsumræðu í samfélaginu á hærra stig og þá sérstaklega til að mynda umræðugrundvöll fyrir næstu Alþingiskosningar. Ég tel að UU geti haft lykilhlutverk í að móta pólitíska umræðu um loftslagsmál, eins og gert var fyrir seinustu kosningar.
Eitt helsta málefnið sem ég tel að mikilvægt sé að þróa samfélagsumræðu um, snýr að því að aftengja hugmyndirnar um loftslagsvernd og vistkerfavernd. Það er mjög skýrt að orkuskortur á Íslandi í dag er að hindra okkur frá því að fara í orkuskipti og skipta út jarðefnaeldsneyti. Það hreinlega verður að virkja meira og afneitun á þeim raunveruleika stendur í vegi loftslags aðgerða. Sömuleiðis mun vera nauðsynlegt að nýta vistkerfi til uppbyggingar á loftslags-jákvæðum iðnaði. Þar með er ekki sagt að vistkerfi skipti ekki máli, en við verðum að geta unnið að málamiðlunum á grundvelli sameiginlegs skilnings á staðreyndum.

Sigrún Perla Gísladóttir býður sig fram í embætti náttúruverndarfulltrúa.

Perla vinnur þvert á listir og vísindi - um þessar mundir að meistaraverkefni í arkitektúr um verndarsvæði í hafi. Hún hefur verið virkur félagi í Ungum umhverfissinnum síðan hún sat í stjórn árið 2020-21 sem gjaldkeri félagsins. Hún var ritstjóri Sólarinnar og hefur verið fulltrúi félagsins t.d. í samráðsnefnd matvælaráðherra um sjávarútvegsstefnu og á aðildarríkjaþingum Sameinuðu þjóðanna, COP15 í Montréal og á COP26 í Glasgow. Perla lærði sjálfbærniarkitektúr við Arkitektaskólann í Árósum og Umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, með áherslu á haffræði. Þá lærði hún að sigla í Stýrimannaskólanum í Reykjavík og finnst fátt betra en að vera á og/eða í sjó.

Ásta Rún Ingvadóttir býður sig fram í embætti náttúruverndarfulltrúa.

Hæ! Ásta heiti ég og er 22 ára gömul. Undanfarin tvö ár hef ég verið Varaungmennafulltrúi Íslands á sviði loftslagsmála hjá Sameinuðu Þjóðunum og hef mikinn áhuga á starfi UU. Mig langar til að taka virkari þátt í starfinu og ákvað þess vegna að bjóða mig fram sem Náttúruverndarfulltrúa. Mitt helsta áhugamál er útivist og umhverfismál hafa verið mér hjartans mál frá grunnskólaaldri. Ég trúi því innilega að ég geti haft góð áhrif og hafi það sem til þarf til að gegna þessu hlutverki. Ég er almennt afar metnaðarfull manneskja og hef óbilandi trú á starfi UU og langar þess vegna að vera partur af þessu bráðnauðsynlega verkefni! Ef einhverjar spurningar vakna þá má alltaf senda mér línu:)

Comments


bottom of page