Áskorun til útihátíða á Íslandi

Ungir Umhverfissinnar hafa sent eftirfarandi áskorun á 31 útihátíð á Íslandi.

Sumarið er í nánd og þar af leiðandi einnig hinar ýmsu útihátíðir. Íslenskar tónlistarhátíðir stæra sig ósjaldan af því að vera grænar að því leytinu til að þær nota græna orku. Þrátt fyrir að orka úr endurnýtanlegum orkugjöfum sé vissulega jákvæð er engan veginn hægt að segja að hátíðarnar séu einstaklega umhverfisvænar. Þjóðhátíð í Eyjum, Eistnaflug, Secret Solstice og Bræðslan veita til að mynda engar upplýsingar á heimasíðum sínum um græna stefnu og virðast ekki hafa tekið skýra stefnu í umhverfismálum. Það liggur því í augum uppi að margt má betur fara varðandi þessi málefni. Umhverfisáhrif útihátíða eru að miklu leiti á ábyrgð þeirra sem halda hátíðina en tiltölulega auðvelt er að breyta til batnaðar og gera betur ár hvert.

Sem dæmi um vel framkvæmanlega og áhrifaríka leið að umhverfisvænni hátíðum væri til að mynda að drykkir væru seldir í þokkalega þykkum plastglösum og myndu gestir þá borga aukalega fyrir glasið. Síðan væri hægt að fara aftur með glasið að merktum stöðum og fá peninginn til baka. Þetta hvetur fólk ekki einungis til að henda ekki drykkjarílátum sínum á jörðina heldur einnig að tína upp glös og halda umhverfinu snyrtilegu.

Einnig ættu stjórnendur hátíða að vera dugmiklir við að benda gestum á umhverfisvæna möguleika. Það má til að mynda gera með því að hvetja fólk til þess að nota almenningssamgöngur, hafa sýnilegar flokkunnartunnur, skilti sem hvetja fólk til þess að virða umhverfið og halda svæðinu hreinu eða einungis fáeinar setningar á heimasíðunni, armböndunum eða miðunum. Ruslfok er mikið vandamál, til dæmis á þjóðhátíð í eyjum þar sem hátíðin er haldin á eyju og stutt er í sjóinn. Þá er einnig mikilvægt að hafa stubbahús á sem flestum stöðum, enda einkar erfitt og mikið verk að týna upp ógrynni sígarettustubba.

Flokkun rusls ætti að vera sjálfsagt mál á útihátíðum á Íslandi en er það því miður ekki. Sú flokkun þarf alls ekki að vera flókin og ætti ekki að vera mikið mál fyrir gestina. Þess má til gamans geta að á Bestival hátíðinni í Bretlandi er pokum dreift til þess að flokka í og fyllir þú poka af ákveðinni gerð getur þú farið með það að endurvinnslumiðstöð og fengið frítt te fyrir hvern poka. Þar er flokkað í 8 flokka en flokkunin þyrfti þó ekki að vera svo ítarleg hérlendis, allavega ekki til að byrja með.

Á öllum hátíðum eru einstaklingar sem taka til að henni lokinni. Vinnan fyrir þetta fólk ætti að vera tiltölulega einföld, skima svæðið og týna upp eitthvað tilfallandi rusl. Því miður er hreinsunarstarfið mikil vinna því fólk skilur oft margt annað eftir sig en bælt gras. Oft á tíðum skilur fólk eftir heilu tjöldin, dýnur, svefnpoka og mikið magn rusls. Tjöld eru ekki úr umhverfisvænum efnum og gríðarlega mikilvægt er að gestir útihátíða reyni að skilja sem minnst eftir sig á staðnum. Það er svo slæmt þegar efni sem þessi eru notuð í einnota tilgangi.

Brýn nauðsyn er að skoða allar leiðir sem gætu leitt til breytinga til batnaðar er varða þessi mál. Útihátíðir á Íslandi eru margar hverjar langt frá því að vera umhverfisvænar og en tiltölulega vandalítið er að gera betur og bæta okkur. Gaman væri að sjá veigamiklar breytingar eiga sér stað í sumar í þessum málefnum og vonandi átta stjórnendur útihátíðanna sig á mikilvægi málsins.

Submit a Comment