Aðalfundur 2019 – Lagabreytingatillögur

Aðalfundur Ungra umhverfissinna 2019 verður mánudaginn 15. apríl kl.20 á Loft hostel, Bankastræti 7, 101 Reykjavík.

Núverandi samþykktir Ungra umhverfissinna.

Lagðar verða fram eftirfarandi lagabreytingatillögur:

Nafn I. kafla verði: Nafn og varnarþing

1. gr. hljóði svo: Nafn félagsins er Ungir umhverfissinnar, skammstafað UU. Á ensku heitir félagið The Icelandic Youth Environmentalist Association. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

Við bætist nýr II. kafli sem nefnist: Hlutverk og markmið

Núverandi 2. og 3. gr. falli brott og í stað bætist við eftirfarandi greinar í II. kafla:

 1. gr. Ungir umhverfissinnar eru frjáls félagasamtök og vettvangur fyrir ungt fólk í öllum landshlutum til að láta gott af sér leiða í umhverfismálum.
 2. gr. Starfsemi félagsins er málefnaleg og þverpólitísk.
 3. gr. UU lítur á fjölbreytni sem styrkleika og er félag fyrir alla unga umhverfissinna. Félagið leitast til að virkja alla félagsmenn til góðra starfa á vegum félagsins. Félagið hefur jafnrétti, jákvæðni og virðingu fyrir öðrum að leiðarljósi, jafnt gagnvart einstaklingum og samfélags- og menningarhópum.
 4. gr. UU nálgast umhverfismál frá öllum sjónarhornum og beitir sér fyrir sjálfbærri þróun, náttúruvernd og hringrásarhagkerfi í samhengi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Nálgun félagsins er heildstæð og byggir m.a. á grunni vísinda, þekkingar á staðarháttum, sjónarmiða nærsamfélags, sameiginlegra hagsmuna mannkyns og réttinda náttúrunnar.
 5. gr. UU leggur áherslu á jafnrétti kynslóða hvað varðar aðgengi að náttúruauðlindum, jafnt á Íslandi sem og á heimsvísu.
 6. gr. UU er málsvari ungmenna í umhverfismálum gagnvart stjórnvöldum, atvinnulífi og samfélagi.
 7. gr. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að:
  -Stuðla að vitundarvakningu og jafningjafræðslu ungs fólks (15-35 ára) um umhverfismál.
  -Hvetja til upplýstrar umræðu um umhverfismál í samfélaginu almennt.
  -Valdefla ungt fólk í lýðræðisþátttöku og hagsmunagæslu fyrir umhverfið og sjálfbæra þróun.
  -Veita stjórnvöldum, atvinnulífi og samfélagi aðhald varðandi stefnumótun, umræðu og almennt hugarfar í tengslum við umhverfismál og réttindi náttúrunnar.
  -Berjast fyrir sjálfbærri þróun, náttúruvernd og hringrásarhagkerfi.
  -Taka virkan þátt í alþjóðasamstarfi um úrlausn hnattrænna umhverfismála á borð við loftslagsmál og vernd náttúrulegrar fjölbreytni.

Núverandi 12. gr. hljóði svo: Stjórn eða 1/10 félagsmanna geta farið fram á að boðað verði til auka aðalfundar. Halda skal fundinn innan mánaðar frá því að krafa berst. Fundinn skal boða með minnst tveggja vikna fyrirvara.

Í núverandi 15. gr. sé leiðrétt stafsetningarvilla og ‘leyti’ sett í stað ‘leiti’.

Núverandi 18. gr. hljóði svo: Stjórn er heimilt að ráða framkvæmdastjóra og getur falið honum starfsmannahald. Stjórn er einnig heimilt að ráða fólk tímabundið til að sinna afmörkuðum verkefnum, sér í lagi ef styrkveiting fyrir verkefni liggur fyrir.

Við bætist nýr VIII. kafli er nefnist ‘Stefnumótun’ og í honum verði eftirfarandi ný grein:
Á þriggja ára fresti, alla jafna í upphafi árs, skal stjórn boða félagsmenn til almenns félagsfundar þar sem lagður er grunnur að stefnu UU til næstu ára. Á fundinum skal skipa vinnuhóp sem annast úrvinnslu á stefnumótunarvinnu fundarins og útbýr tillögu að stefnu í samráði við stjórn. Tillagan er lögð fyrir á næsta aðalfundi.

Í núverandi 22. gr. sé leiðrétt stafsetningarvilla og ‚félagsins‘ sett í stað ‚félgasins‘.

Viðburðurinn á Facebook.